Kári Steinn og Gunnar eftir hlaupið fræga í Berlín 2011.Eins og hlaup.is greindi frá um helgina tók Kári Steinn Karlsson þátt í Hamborgarmaraþoninu þann 26. apríl. Hlaupið gekk ekki sem skyldi hjá Kára Steini sem var töluvert frá sínu besta, hljóp á 02:21:20 eða um fjórum mínútum frá Íslandsmeti sínu.Sjálfur hefur Kári Steinn ekki leynt vonbrigðum sínum í fjölmiðlum enda stefndi hann á að tryggja farseðillinn á Ól í Ríó á næsta ári. Hins vegar verður að minna á að enn er nægur tími til stefnu og Kári Steinn er hvergi banginn, ennþá staðráðinn í að fara til Ríó.Við heyrðum í þjálfara Kára Steins, Gunnari Páli Jóakimssyni og spurðum hann nánar út í hlaupið, framhaldið og um leiðina að takmarkinu, Ól í Ríó.
Kári Steinn hljóp fyrri hluta hlaupsins á 68 mínútum, er það "Íslandsmetstempó," ef svo mætti að orði komast?
Fyrri hlutinn vara nákvæmlega á þeim hraða sem lagt var upp með. Millitími sem leiða átti til Íslandsmets og lágmarks á HM og ÓL en Kári Steinn var strax farinn að finna til stífleika og átti orðið erfitt með að hlaupa létt með hópnum sem hann var í. Í næsta hlaupi viljum við sömu millitíma upp í hálft maraþon en þá með skrokkinn tilbúinn í að halda seinni hlutanum á sama hraða eða hraðar.
Seinni hluti hlaupsins gekk ekki vel, kom eitthvað sérstakt upp á hjá Kára Steini eða var þetta einfaldlega ekki hans dagur?
Hvoru tveggja. Kári Steinn hafði verið stífur í baki dagana fyrir hlaup og það ágerðist eftir því sem á hlaupið leið og gekk yfir allan skrokkinn þannig að hann stífnaði frá öxlum og niður í fætur. Eftir 25 km fann hann að hann gæti engan veginn haldið hraðanum seinni hlutann þar sem hann er yfirleitt sterkastur. Vegna aðstæðna hér heima hefur Kári Steinn tekið megnið af öllum lykilæfingum á hlaupabretti. Þó þær æfingar hafi gengið vel er alltaf betra að geta tekið æfingarnar á stígum við sambærilegar aðstæður og í keppni.
Hvernig lítið þið á hlaupið um helgina með tilliti til stóra takmarksins, ÓL í Ríó 2016? Hefur þetta áhrif á ykkar áherslur að áætlanir?
Þetta hefur áhrif á áherslur að því leyti að ef HM lágmarkið hefði náðst hefði næsta takmark verið HM í Beijing í ágúst. Nú er hæpið að fara í annað hlaup til að ná lágmarki fyrir Beijing. Þá væru þrjú maraþon á dagskrá á fjórum mánuðum. Líklegra er að best sé að ná góðu sumri í 10 km og hálfmaraþoni og ná góðu maraþonhlaupi í haust, t.d. í Berlín. Lágmarkið á síðustu leika náðist í Berlín og því væri gaman að endurtaka leikinn þar. Það er hægt að treysta á góðar aðstæður til útihlaupa í undirbúningi fyrir maraþon að hausti þannig að það er öruggari kostur en vormaraþon.