birt 12. september 2004

Fyrir þá sem ekki vita er Hálftíminn hópur fólks sem hleypur af stað frá Laugardalslaug klukkan 6:30 á þriðjudags- og fimmtudagsmorgnum. Hálftíminn ber nafn sitt af þeirri tilhögun að hlaupið er í hálftíma (6:30 -7:00), farið í heita pottinn í hálftíma (7:00-7:30) og að lokum fá meðlimir sér kaffi og bakkelsi, heitt úr ofninum í afgreiðslu Laugardalslaugarinnar til kl. 8:00, þeir sem hafa tíma.

Til að gerast meðlimur í Hálftímanum þarf bara að mæta og koma með. Á sumrin er Hálftíminn oft fámennur, meðal annars vegna sumarfría og óreglu á svefntíma meðlima vegna birtuskilyrða, en þegar haustar og dimmir og líf hins almenna hlaupara fellur í venjubundnar vetrarskorður fjölgar aftur í Hálftímanum.

Núna með haustinu eru ýmsir Hálftímahópsmeðlimir farnir að tínast aftur í Hálftímann, sumir eftir langt hlé, þeim sem hafa haldið Hálftímanum uppi í sumar, þrátt fyrir fámenni, til óblandinnar ánægju. Sjá hópmeðlimir fram á góðan hlaupavetur með bættum hlaupatímum, fjörugum heitapottsumræðum og heitum rúnnstykkjum.

Bibba