Heimsmeistaramót í hálfu maraþon - Styddu við bakið á keppendum og hlustaðu á skemmtilegan fyrirlestur í staðinn

birt 18. mars 2014

Frjálsíþróttasamband Íslands hefur valið sjö keppendur til að taka þátt í heimsmeistaramótinu í hálfmaraþoni sem fram fer í Kaupmannahöfn 29. mars. Um er að ræða einstaklingskeppni og 3 manna sveitakeppni. Þetta verður í fyrsta skiptið sem íslensk karlasveit tekur þátt í þessu móti en árið 1993 var send 3 kvenna sveit í hlaupið sem fór fram í Osló. Það vill svo skemmtilega til að Martha Ernstsdóttir sem þá var á hápunkti ferils síns og varð í 15. sæti á tímanum 1:12:15 klst verður aftur með núna en hún verður fimmtug næsta haust.

Eftirtaldir keppendur munu keppa fyrir Íslands hönd:

Karlar:

  • Kári Steinn Karlsson
  • Þorbergur Ingi Jónsson
  • Arnar Pétursson
  • Ingvar Hjartarson

Konur:

  • Helen Ólafsdóttir,
  • Arndís Ýr Hafþórsdóttir
  • Martha Ernstsdóttir

Þjálfarar/fararstjórar:

  • Gunnar Páll Jóakimsson
  • Sigurður P. Sigmundsson

Til að standa straum af kostnaði við þessa ferð, þá rennur allur aðgangseyrir af næsta fyrirlestri Framfara til þessa hóps. Fyrirlesturinn hefst kl. 20:00 þann 19. mars í sal Fjölbrautarskólans við Ármúla og er aðgangseyrir kr. 1000 fyrir fullorðna en frítt er fyrir 16 ára og yngri.