Heimsmeistaramót í hálfu maraþoni - Tímar Íslendinganna

birt 29. mars 2014

Eins og fram hefur komið þá tóku sex Íslendingar þátt í heimsmeistarakeppninni í hálfu maraþoni sem fram fór í Kaupmannahöfn laugardaginn 29. mars. Í liðið voru valdir bestu langhlauparar Íslands, en af þeim lentu tveir í meiðslum fyrir keppnina og gátu ekki tekið þátt, en það voru þeir Þorbergur Jónsson og Ármann Eydal.

Aðstæður voru hinar bestu í Kaupmannahöfn og náðist mjög góður árangur hjá flestum keppendum. Kári Steinn Karlsson setti Íslandsmet 1:05:12 og bætti eigið met um 23 sekúndur. Hann hefði sennilega náð að bæta metið enn frekar ef hann hefði ekki fengið slæma byltu í startinu, en einn keppandinn hljóp Kára niður. Arnar Pétursson bætti einnig sinn besta tíma og hljóp á 1:09:44.  Ingvar Hjartarson var svo óheppinn að fá matareitrun nóttina fyrir hlaupið og var því ekki í standi til að hlaupa. Hann byrjaði þó hlaupið en neyddist til að hætta eftir 14 km. Ótrúlega leiðinlegt fyrir þennan unga og efnilega hlaupara.

Arndís var einnig að bæta sinn besta tíma og hljóp á 1:20:01 og grátlega nálægt því að komast undir 1:20. Hún sagði í viðtali eftir hlaupið að brautin hefði legið þannig að ekki sást á klukkuna í markinu fyrr en rétt áður en komið var að markinu. Annars hefði hún að öllum líkindum náð að kreista tímann undir 1:20. Arndís er hins vegar í flottu formi og mun að öllum líkindum ná þessu markmiði sínu fljótlega. Martha Ernstsdóttir hljóp á fínum tíma, 1:24:23 en hún var elsti hlauparinn í keppninni. Annars á Martha Íslandsmetið í kvennaflokki 1:11:40. Helen Ólafsdóttir hljóp á tímanum 1:24:40, en hún hafði verið að glíma við smá meiðsli fyrir hlaupið.

Hlaup.is var á staðnum og tók viðtal við keppendur, sem við birtum fljótlega.

Tímar kvennanna:

Arndís Hafþórsdóttir: 1:20:01 (PB)
Martha Ernstsdóttir: 1:24:23
Helen Ólafsdóttir: 1:24:40

Tímar karlanna:

Kári Steinn Karlsson: 1:05:12 (Íslandsmet)
Arnar Pétursson: 1:09:44 (PB)
Ingvar Hjartarson: DNF

Kári Steinn kemur í markKári Steinn í viðtali við hlaup.isSigurður P. og Arndís Ýr Sigurður P. og Arnar í viðtali fyrir hlaup.isKári Steinn og Arnar Pétursson Hlauparar í karlaflokki fara af staðHlauparar í karlaflokki