Hið árlega hjólaskíðamót Skíðagöngufélagsins Ulls fer fram sunnudaginn 26. ágúst og verður ræst kl 10:00 um morguninn. Keppt verður með hefðbundinni aðferð og mun mótið fara fram á göngustígum umhverfis Seltjarnarnes. Rásmark og endamark verður á móts við smábátahöfnina, við gatnamót Suðurstrandar og Bakkavarar, og gengnir 5 km inn á Eiðsgranda að drykkjarstöð og til baka. Þetta er nær lárétt leið en viðbúið að vindur virki eins og brekkur hvað erfiði varðar.
Þátttökugjald er kr 1000 og greiðist á staðnum. Keppt verður í flokkum karla og kvenna 17- 39 ára og 40 ára og eldri. Keppendur fá frítt í sundlaug Seltjarnarness að keppni lokinni.
Skráning fer fram á heimasíðu félagsins: www.ullur.is og einnig á staðnum frá kl. 9:30.
Nánari upplýsingar veita Óskar í síma 864 6433 og Málfríður í síma 894 6337.
Allir þeir sem eru að æfa á hjólaskíðum eru hvattir til að vera með og nota mótið sem lið í æfingum sínum. Jafnframt er þetta kjörið tækifæri til að sjá hvernig ganga á hjólaskíðum fer fram. Annað útivistarfólk er beðið að taka tillit til keppendanna á göngustígnum en keppni ætti að verða lokið fyrir kl.11:30.
Vinsamlegast fylgist með nánari fréttum af mótinu á www.ullur.is, ef veður kynni að hafa áhrif á tíma-og staðsetningu.
Skíðagöngufélagið Ullur
www.ullur.is