Hlaup til styrktar líffæraþegum sem stefna á heimsleika

birt 30. apríl 2014

Styrktarhlaup líffæraþega fer fram í Fossvogsdalnum (hlaupið frá Víkinni), 20. maí kl. 19:00. Allur ágóði af hlaupinu rennur í ferðasjóð nokkurra íslenska líffæraþega sem stefna á að taka þátt í heimsleikum líffæraþega sem fram fara í Argentínu haustið 2015.

Í maí 2013 fór í fyrsta sinn fram á Íslandi götuhlaup til styrktar keppendum sem hugðust taka þátt í Heimsleikum líffæraþega sem fram fór í Durban í Suður Afríku síðar um sumarið. Forsprakkinn var Kjartan Birgisson hjá Hjartaheill og fékk hann til liðs við sig fjölda vina og sjálfboðaliða sem létu viðburðinn verða að veruleika og meira en það, þar sem hlaupið heppnaðist það vel að það var valið „Besta götuhlaupið 2013" samkvæmt einkunnargjöf fyrir götuhlaup á www.hlaup.is

Í ár verður leikurinn endurtekinn í samvinnu við Heilsutorg.is og fer hlaupið fram þann 20. maí í Fossvogsdalnum en hlaupnar verða tvær veglengdir, 5 og 10 km sem eru löglega mældar. Þátttökugjald er 2.000 kr. fyrir 22 ára og eldri en 1.000 kr. fyrir 21 árs og yngri.

Kynning fer fram á www.hjartaheill.is og heilsutorg.is en skráning er hafin á http://heilsutorg.karfa.is/products/styrktarhlaup-argentinu-heimsleikafara. Allir sem skrá sig í hlaupið fá 15% afslátt af skóm í vefverslun Heilsutorgs !

Styrktarhlaupinu er fyrst og fremst ætlað að vekja athygli á viðburðinum í Argentínu og því að Íslendingar eru meðal þátttakenda en einnig að safna fé til handa ferðalöngunum. Að hlaupinu standa Hjartaheill og vefsíðan heilsutog.is.