Ágætu hlauparar,
Við Úlfar maðurinn minn höfum lengi verið gersamlega heilluð af lýðveldinu Suður Afríku og höfum ferðast þangað reglulega síðustu 10 árin. Náttúrufegurðin er ólýsanleg, fólkið vinsamlegt, matur og gisting ódýr og í mjög háum gæðaflokki og ekki skemmir það að götuhlaup eru ákaflega vinsæl. Á pöbbunum þar í landi eru myndir af hlaupurum upp á veggjum en ekki fótboltastjörnum! Hvernig líst ykkur á það!
Alla vega, við höfum lengi haft spurnir af The Two Oceans marathon sem er 56 km götuhlaup um ægifögur svæði í grennd við Höfðaborg. Leiðin er öll á malbiki og mjög krefjandi, þ.e. mikið um brekkur bæði upp og niður. Þetta er árlegt hlaup og er alltaf þreytt laugardag fyrir páska. Allar frekari upplýsingar fást á heimasíðu hlaupsins http://www.twooceansmarathon.org.za. Þess má geta að netskráning í hlaupið byrjar í september næstkomandi.
Okkur leikur forvitni að vita hvort áhugi sé hjá íslenskum hlaupurum að taka þátt í þessu ævintýri næsta ár, en þá ber laugardag fyrir páska upp á 15. apríl. Þá er haust í Suður-Afríku og hitinn ætti að vera skaplegur, einkum vegna þess að hlaupið byrjar kl. 6:00 um morguninn. Einnig er boðið upp á hálfmaraþon sem byrjar og endar á sama stað og hitt. Það er ræst 25 mínútum síðar. Fjöldi þátttakenda í báðum hlaupum hefur verið milli 7-8 þúsund. Á heimasíðu hlaupsina má sjá kort af báðum leiðunum og myndir.
Keppendur í lengra hlaupinu þurfa að hafa hlaupið maraþon nokkru fyrir hlaupið en engar slíkar kröfur eru fyrir það hálfa. Í ár var hlaupið síðast í mars og þá þurftu menn að hafa hlaupið maraþon á tímabilinu 1. apríl 2004 til 28. feb, 2005.
Þetta þarf ekki að vera svo dýr ferð. Flugið er þó að minnsta kosti ca. ISK 80þús alla leið, gjarnan gegnum London en gisting og uppihald er miklu ódýrara en í öðrum borgum, svo þetta kemur svipað eða jafnvel ódýrara út en til dæmis New York maraþon. Það er hægt að fá fína gistingu í íbúðarhótelum frá ISK 2500 á mann og upp úr.
Það væri td. sniðugt að hefja ferð á miðvikudag, lenda skírdagsmorgunn, hlaupa laugardag og eiga svo nokkra daga í afslöppun og skoðunarferðir á eftir. Af nógu er að taka í þeim efnum. Góðravonahöfði er ekki langt frá Höfðaborg, það er bara dagsferð, og svo eru falleg vínhéruð einnig nálæg sem gaman er að heimsækja. Höfðaborg sjálf býður einnig upp á fjölmargt í listum, menningu og mat. Eflaust eru margir sem myndu vilja lengja ferð sína en vika er algert lágmark.
Það væri gaman að heyra frá áhugasömum, sendið mér endilega tölvupóst.
Af gefnu tilefni tek ég fram að í öllum okkar heimsóknum til Suður-Afríku höfum við aldrei orðið vör við neina glæpi. Það hefur varla verið gelt á okkur.
Bestu kveðjur,
Bryndís Magnúsdóttir
bryndism@icelandair.is