Laugardaginn 1. september verður haldin hlaupahátíð Vesturbæjar í fyrsta skipti. Það er samstarfsverkefni Vesturbæjarlaugar og hlaupasamtaka Lýðveldisins sem hlaupa frá lauginni. Styrktaraðilar eru ÍTR og Melabúðin.
Verndari hátíðarinnar er Guðrún Arna Gylfadóttir framkvæmdastjóri Vesturbæjarlaugar.
Hátíðin hefst kl. 14:00 og henni lýkur kl. 17:00. Hlaupin verða 3 hlaup án tímatöku og það lengsta 10 km. Þau eru hugsuð sem fyrsta æfing vetrarins. Hverju hlaupi stjórnar reyndur hlaupari og að minnsta kosti einn annar hlaupari verður með hverjum hópi, aftastur. Helst fleiri.
Að loknum hlaupunum verður hátíð við sundlaugina, veisluborð í boði Melabúðarinnar og jafnvel skemmtiatriði, í það minnsta er öruggt að það verður tónlist og sennilega lifandi tónlist. Hátíðina setur forseti samtakanna Vilhjálmur Bjarnason og kynnir verður Ágúst Kvaran einn merkasti langhlaupari þjóðarinnar.
Tímaröð atburða er þannig að eftir ávarp og kynningu verður farið í að skipuleggja hlaupin, leiðum lýst, eitt í einu og fyrst sent af stað 10 km hlaupið, síðan unglingahlaupið og síðast barnahlaupið.
Eftir hlaupin verður borðað og skemmtiatriði ef einhver verða fara fram þegar allir hlauparar eru komnir til baka.
Frítt verður í Vesturbæjarlaug þennan dag fyrir alla gesti vegna hátíðarinnar.
Jafnframt verður vetrarstarfið kynnt og fyrirhugað félagsstarf á vegum Hlaupasamtakanna á komandi máuðum. Það mun kynnir gera með sínum hætti.
Hlaupin
Barnahlaupið er niður Hofsvallagötu, til hægri inn Einimelinn og hringinn að barnaheimilinu og upp að lauginni aftur. Þennan hring mætti endurtaka ef mjög góð stemmning myndast í barnahópnum.
Unglingaskokkið byrjar líkt og mánuidagsæfing, en beygt verður inn til hægri Grímshaga og farnir stígarnir til baka.
10 km hringurinn verður afbrigði af mánudagshlaupi, fólk getur hætt í hálfnuðu hlaupi við Hofsvallagötuna og verður sá möguleiki (5 km.) kynntur fyrir hlaup. Það á eftir að finna hvaða hringur er nákvæmlega 10 km þegar þetta er ritað.