Hlaupahópur FH stendur fyrir Bleika hlaupinu

birt 04. október 2018

Bleika hlaupið sem er árlegur viðburður hjá Hlaupahópi FH, fer fram laugardaginn 13.október kl. 9:00.

Bleika hlaupið er haldið á hverju ári til að styrkja gott málefni tengt krabbameini. Einn af hverjum þremur greinist með krabbamein á lífsleiðinni. Afar mikilvægt er að krabbameinssjúkir og aðstandendur þeirra geti gengið að áreiðanlegri ráðgjöf og stuðningi í veikindunum og í kjölfar þeirra.

Hlaupahópur FH ákvað að þessu sinni að styrkja Kraft en Stuðningsfélagið Kraftur var stofnað 1. október 1999. Kraftur hefur það að leiðarljósi að styðja við ungt fólk sem greinst hefur með krabbamein sem og aðstandendur þeirra.

Hlaupið hefst kl. 9:00 í Kaplakrika (við aðalinngang bílastæðamegin) og þemað er auðvitað bleikt. Boðið verður upp á nokkrar vegalengdir, bæði hlaupa- og gönguleiðir.

Framlög til söfnunarinnar eru frjáls, baukar verða á staðnum en einnig er hægt að leggja inn á reikning 0327-26-9036, kt. 681189-1229 og setja KRABB í skýringu. Félagar í Hlaupahóp FH bjóða eins og vanalega upp á glæsilegar veitingar að hlaupi loknu.

Frábært framtak hjá FH-ingum, hlaupið verður svo sannarlega góð byrjun á góðum degi. Allir hjartanlega velkomnir.

Heimasíða Krafts.