Hlaupahópur Stjörnunnar lítur yfir árið í glæsilegu uppgjörsmyndbandi

birt 12. janúar 2016

Hlaupahópur Stjörnunnar gerði hlaupaárið 2015 upp í skemmtilegu myndbandi sem rak á fjörur hlaup.is. Farið er í gegnum hlaupaárið með skemmtilegum myndum af meðlimum í fjölda almenningshlaupa sem Stjörnufólk var greinilega duglegt að taka þátt í á síðasta ári. Engu líkara er en að Stjörnumenn hafi verið með fulltrúa í hverju einasta hlaupi sem fram fór á Íslandi árið 2015. Þá voru Garðbæingar duglegir að hlaupa erlendis, París, Berlín, Gautaborg, Chicago, Dublin og Munchen voru á meðal áfangastaða hjá Stjörnuhlaupurum árið 2015.

Greinilegt er að frábært starf er unnið í Hlaupahópi Stjörnunnar eins og t.d. glæsilegt Stjörnuhlaup 2015 sýndi en þar voru þátttakendur rúmlega 300. Hlaupinu voru m.a. gerð skil í frábæru myndbandi sem finna má á heimasíðu hlaupsins.

Myndbönd sem þessi styrkja og auka hróður hlaupaíþróttarinnar, skapa stemmingu, samkennd og styrkja sérhvern hlaupahóp. Við hvetjum hlaupahópa landsins til að gefa enn frekar í á nýju ári, jafnvel ráðast í myndbandagerð. Hlaup.is hefur alltaf áhuga á slíkum myndböndum, ábendingum um slík myndbönd og annað áhugavert efni skal senda á heimir@hlaup.is eða torfi@hlaup.is.