Hlaupalíf - hlaðvarp hefur verið á fullri ferð í sumar. Stórhlaupararnir Elín Edda Sigurðardóttir og Vilhjálmur Þór Svansson eru umsjónarmenn þátttarins en þar er fjallað um hlaup frá öllum hliðum. Þátturinn hóf göngu sína í vor og hefur þessi frábæra viðbót við íslenska hlaupasamfélagið notið mikilla vinsælda.
Hverskonar hlaðvörp hafa notið mikilla vinsælda upp á síðkastið, ekki síst meðal okakr hlaupara enda kjörið að hlusta á meðan hlaupið er.
Þau Elín Edda og Vilhjálmur hvetja alla til að hlusta og eru einnig opin fyrir tillögum að umfjöllunarefnum. Hugmyndir má senda á hlaupalif@gmail.com eða inn á fésbókarsíðu þáttarins. Hlaðvarpið má finna á öllum helstu hlaðvarpsveitum.
Hér að neðan má nálgast fjóra síðustu þætti Hlaupalífs - hlaðvarps, nokkuð ljóst að margir munu hafa þau Elínu Eddu og Vilhjálm í eyrunum í Reykjavíkurmaraþoni Íslandsbanka á laugardaginn kemur.
Í níunda þætti af Hlaupalíf Hlaðvarp er rætt við Grétu Rut Bjarnadóttir ung-langhlaupara og tannlæknanema sem sagði okkur frá reynslu sinni sem hún og maki hennar lentu í síðastliðið haust og hvernig hún tók á því með hlaupunum.
Í áttunda þætti ræða þáttastjórnendur við Trausta Jarl Járnkarl Valdimarsson lækni, langhlaupara og þríþrautarkeppanda. Þá var Trausti nýkominn heim frá Spáni þar sem hann keppti í Járnkarlinum, sem er ekki í frásögur færandi nema að hann er rétt rúmlega sextugur og eflaust í besta formi lífs síns. Trausti sem byrjaði að æfa langhlaup um þrítugt er í dag margreyndur langhlaupari, hefur m.a hlaupið undir 3 klst í maraþoni, sigrað Tíbetmaraþonið 2008, keppt reglulega í járnkarlinum og hlaupið yfir 100 sinnum í Powerade keppnum.
Í sjöunda þætti er gestur þátttarins næringafræðingurinn og ofurlanghlauparinn Elísabet Margeirsdóttir. Þar er farið mál málanna: NÆRINGU. Umræðuefnið sem allir hafa áhuga á og allir vilja skilja en eiga kannski erfitt með að ná utan um.
Í sjötta þætti er viðmælandi þáttarins fyrirmyndin, ofurhlauparinn og hjartalæknarinn Þórdís Jóna Hrafnkelsdóttir sem þá var nýkomin frá HM í utanvegahlaupum í Portúgal.