Áheitakóngar- og drottningar ásamt forsvarsfólki RM.Hlauparar söfnuðu 97.297.117 krónum til 164 góðgerðafélaga í Reykjavíkurmaraþoni Íslandsbanka. Á uppskeruhátíð áheitasöfnunar Reykjavíkurmaraþonsins sem fram fór í gær, miðvikudag, kom fram að um nýtt met sé að ræða, upphæðin sé 21% hærri en safnaðist í fyrra.Heildarupphæð áheita sem hafa safnast í tengslum við Reykjavíkurmaraþon Íslandsbanka frá því áheitasöfnun hófst árið 2006 er nú komin í rúmlega 545 milljónir.Tæp 30 þúsund áheitÞeir hlauparar og boðhlaupslið sem söfnuðu mest voru heiðraðir með viðurkenningum á áheitahátíðinni í gær.
Þá voru einnig veitt verðlaun til góðgerðafélaga sem voru með hvatningarstöð á hlaupaleiðinni, um var að ræða útdráttarverðlaun að upphæð 50 þúsund krónur sem komu í hlut MS félags Íslands og Parkinsonsamtakanna.
Skorri Rafn Rafnsson safnaði mest allra einstaklinga, 3.643.500 krónur fyrir Styrktarfélag krabbameinssjúkra barna. Aldrei áður hefur einstaklingur safnað eins miklu en gamla metið var 1,6 milljón frá árinu 2014. Hilmir Vilberg Arnarsson safnaði næst mest, 2.833.000 krónur fyrir CMT4A Styrktarsjóð Þórdísar. Í þriðja sæti einstaklinga var Lárus Guðmundur Jónsson sem safnaði 1.848.075 krónum fyrir Bergmál líknar- og vinafélag. Boðhlaupsliðið sem safnaði mestu var liðið Jötunn en þau söfnuðu 243.480 krónum fyrir Hjartaheill.
Alls bárust 26.988 einstök áheit í söfnun Reykjavíkurmaraþons Íslandsbanka á hlaupastyrkur.is í ár og var meðal upphæð áheita 3.605 krónur. Flest áheit fékk Valdimar Guðmundsson, 384 talsins, en hann safnaði 1.072.500 krónum fyrir Krabbameinsfélag Íslands. Aldrei áður hefur einstaklingur fengið eins mörg áheit og Valdimar fékk í ár, gamla metið var 341 áheit frá árinu 2014.
Áheitin voru greidd til góðgerðafélaganna um síðustu mánaðamót. Þau félög sem fengu mest úr söfnuninni í ár voru Styrktarfélag krabbameinssjúkra barna 6,7 milljónir, Ljósið 5,4 milljónir, og Krabbameinsfélag Íslands 4 milljónir. 118 af þeim 164 félögum sem safnað var fyrir fengu meira en 100.000 krónur í sinn hlut, 27 félög fengu meira en milljón.
Nánari upplýsingar um áheitasöfnunina má finna á www.hlaupastyrkur.is.