Hlaupið um Skarðsheiðarveg á laugardaginn

uppfært 25. ágúst 2020

Laugardaginn 18. maí 2019 efna Stefán Gíslason og bókaútgáfan Salka til sérstaks fjallvegahlaupabókarhlaups yfir Skarðsheiðarveg. Hlauparar koma saman á Skorholtsmelum í Melasveit og þaðan er hlaupið að Hreppslaug í Andakíl. Sundlaugin verður opin sérstaklega af þessu tilefni og boðið verður upp á hressingu á staðnum fyrir svanga hlaupara. Mæting er á Skorholtsmela kl. 9.45 og lagt verður af stað 10.00.

Leiðin um Skarðsheiðarveg er 19,76 km löng og fylgir öll greinilegum stígum. Hún er því þægileg yfirferðar þrátt fyrir nokkra hækkun. Einnig er hægt að stytta leiðina um 5 km með því að aka eftir sæmilegum malarvegi fyrsta spölinn og hlaupa þá tæplega 15 km í heildina.
Leiðin um Skarðsheiðarveg er ein af þeim fimmtíu sem gerð eru skil í bókinni Fjallvegahlaup eftir Stefán Gíslason sem Salka gaf út. Bókin verður til sölu á sérstöku tilboði við endamarkið.

Í hlaupinu þann 18. maí gilda sömu meginreglur og ævinlega hafa gilt í fjallvegahlaupum Stefáns, þ.e. að öllum er velkomið að taka þátt, enda er maður manns gaman. Þátttakan er þó alltaf á ábyrgð hvers og eins.

Nauðsynlegt er að skrá sig til þátttöku í hlaupinu yfir Skarðsheiðarveg, þannig að hægt sé að sjá hlaupurum fyrir nægum veitingum við endamarkið. Þátttakendur þurfa sjálfir að koma sér á upphafspunktinn og frá lokapunktinum. Engin þátttökugjöld eru í hlaupinu, enda verður þetta fríhlaup (e. „free running") í tvennum skilningi. Engin formleg tímataka er í hlaupinu, heldur má nota skeiðklukkur og dagatöl að vild. Hlaupið eru ekki keppnishlaup, heldur er mælt með því að þátttakendur fylgist að, allir saman eða í smærri hópum. Sem fyrr segir verður boðið upp á veitingar að hlaupi loknu, en engar drykkjarstöðvar verða á leiðinni umfram þær sem finna má í hverjaum læk.

Hlaupið hefst sem fyrr segir á Skorholtsmelum í Melasveit, en þangað er um 60 km akstur frá Reykjavík. Upphafsstaðurinn er nánar tiltekið á Þjóðvegi nr. 1, nokkurn veginn mitt á milli bæjanna Skorholts og Fiskilækjar - og enn nánar tiltekið með hnattstöðuna N64°25,07'' - V21°55,59''.

Skráning fer fram hér og henni lýkur 15. maí: https://www.eventbrite.com/e/fjallvegahlaup-skarsheiarvegur-tickets-61489091528

Að hlaupi loknu gefst kostur á að kaupa bókina Fjallvegahlaup á góðu verði og að sjálfsegðu verður boðið upp á áritanir á staðnum :)

Facebooksíða hlaupsins: https://www.facebook.com/events/620973265038588/?active_tab=about