Hlaup.is á stórafmæli, 20 ára í dag

birt 13. ágúst 2016

Hlaup.is á stórafmæli í dag, en þann 13. ágúst 1996 var vefurinn settur í loftið. Hlaup.is hefur því kappkostað að þjóna hlaupurum á Íslandi í hvorki meira né minna en tvo áratugi. Ástæða er til að þakka ykkur hlaupurum fyrir áhugann og samfylgdina allan þennan tíma því án ykkar væri hlaup.is ekki til.

En á tímamótum er einnig gott að staldra við og það gerum við á hlaup.is svo sannarlega, ávallt eru nýjungar í farvatninu og forsvarsmenn síðunnar eru alltaf að leita leiða til að bæta þjónustu við hlaupara. En eins og hlauparar þekkja þá er kappið best með forsjá og þar sem vinna í kringum síðuna er fyrst og fremst áhugamál þá kemst stundum minna í verk en síðuhaldarar vildu.´


Fyrsta lógó hlaup.is

Í náinni framtíð er stefnt á að umbylta útliti síðunnar, jafnvel með spennandi og athyglisverðum nýjungum, allt með það að markmiði að geta þjónustað hlaupasamfélagið með ennþá betri hætti. En slíkar breytingar kosta mikla vinnu og fjármuni. Hlauparar geta sannarlega lagt sitt af mörkum með því að kaupa myndir eða skrá sig á hlaupanámskeið á hlaup.is. Hlaupahaldarar geta lagt sitt af mörkum með því að nota skráningarkerfi hlaup.is. Og þá minnum við auglýsendur á þann frábæra kost sem hlaup.is er fyrir hlaupatengdar vörur.

Kæru hlauparar; haldið áfram að koma við á síðunni okkar, glugga í úrslitin, skoða myndirnar, skipuleggja hlaupadagatalið, lesa fréttirnar, skrá ykkur í hlaup, nota hlaupadagbókina og kryfja yfirheyrslurnar. Því fleiri, lengri og betri heimsóknir, því betri síða. Án ykkar gerist ekkert.

Í tilefni afmælisins ætlar hlaup.is að standa fyrir 20 ára afmælisgetraun undir yfirskriftinni "Ertu þræll hlaupatískunnar?" Hugmyndin er að lesendur sendi gamlar eða nýjar myndir af sér í gömlum hlaupadressum. Við hvetjum alla hlaupara til að taka þátt en nánar má lesa um þennan skemmtilega leik í frétt hlaup.is.

Hugmynd verður að veruleika
Í tilefni dagsins þá fá lesendur örlitla innsýn inn í sögu og upphaf hlaup.is. Fyrsta útgáfan af hlaup.is birtist þann 13. ágúst 1996. Það má með sanni segja að hlaup.is hafi verið á undan sinni samtíð enda heimasíður á netinu ekki svo algengar árið 1996. Til marks um það fór hin mæta síða mbl.is ekki í loftið fyrr en 1998.

Tilurð hlaup.is má rekja til þess að umsjónarmaður. Torfi H. Leifsson, hafði um nokkurra ára skeið æft langhlaup með markvissum hætti. Eins og aðrir hlauparar tók umsjónarmaður þátt í mörgum almenningshlaupum, en oft var heilmikið mál að nálgast tímana í hlaupunum. Annaðhvort voru þeir hengdir upp nokkrum klukkutímum eftir að hlaupi var lokið eða jafnvel daginn eftir. Þá var einnig hending hvort dagblöð birtu úrslitin. Það var því sumarið 1996 sem hugmynd kviknaði um að nota Internetið til að miðla úrslitum í almenningshlaupum. Hugmyndin var viðruð meðal nokkurra hlaupafélaga á einni hlaupaæfingunni, þar sem jákvæð viðbrögð fengust og því var ráðist í að setja upp hlaup.is á vefnum og birtist fyrsta útgáfa hennar á vefnum þann 13. ágúst 1996.

Svona leit hlaup.is út þá í sinni fyrstu útgáfu.

Fljótlega var útgáfa tvö af hlaup.is sett á vefinn og þá leit hún út eins og meðfylgjandi mynd sýnir:

En hugmyndin er alltaf sú sama í grunninn, að bjóða hlaupaurum upp á þjónustu og hlaupatengdan fróðleik og afþreyingu. Hlaup.is hlakkar til næstu 20 ára með lesendum og óskar íslenska hlaupasamfélaginu til hamingju með daginn.