Hlaup.is er 10 ára í dag sunnudaginn 13. ágúst

birt 13. ágúst 2006

Hlaup.is er 10 ára í dag sunnudaginn 13. ágúst.

Tilurð hlaup.is má rekja til þess að undirritaður hafði um nokkurra ára skeið æft langhlaup og tekið þátt í almenningshlaupum. Oft var heilmikið mál að nálgast tímana í hlaupunum. Annað hvort voru þeir hengdir upp einhverjum klukkutímum eftir að hlaupi var lokið eða þá ekki fyrr en daginn eftir. Þá var einnig hending hvort dagblöðin birtu úrslitin. Það var því oft erfitt að sjá heildarúrslit.

Það var því sumarið 1996 sem hugmynd kviknaði um að nota Internetið til að miðla úrslitum í almenningshlaupum. Hugmyndin var viðruð meðal nokkurra hlaupafélaga á einni hlaupaæfingunni, þar sem jákvæð viðbrögð fengust, og því var ráðist í að setja upp hlaup.is á vefnum og birtist fyrsta útgáfa vefsins þann 13. ágúst 1996.

Sjá nánar undir Um hlaup.is/Saga hlaup.is.

Á þessum 10 árum hefur umsjón hlaup.is að mestu í höndum undirritaðs, en þó með góðu innleggi frá ýmsum hlaupurum sem miðlað hafa reynslusögum. Einnig hafa ráðgjafar hlaup.is komið með gott innlegg, en eftir þá liggja núna svör við fjöldamörgum fyrirspurnum hinna ýmsu hlaupara. Einnig er umsjón flokksins Ársbesta í höndum nokkurra hlaupara og einnig munu fleiri koma að efnisinnsetningu á næstunni. Vonandi verður það til þess að fjölbreytni og innihald eykst til góðs fyrir alla hlaupara og skokkara.

Það er frábært að sjá þá skokkbylgju sem er í gangi þessa dagana og er það ekki síst Glitni að þakka, sem hefur stutt Reykjavíkurmaraþon gríðarlega og auglýst mikið. Þegar í bland fer góð kynning og breyttur hugsanaháttur fólks um heilsu sína, þá er augljóst að aukning verður í hlaupaíþróttinni.

Aukinn áhugi sýnir sig líka í aðsóknartölum hlaup.is, en aðsókn hefur aukist um 40% frá því á sama tíma í fyrra. Núna skoða um 1700 mismunandi einstaklingar vefinn í hverri viku að meðaltali, en hæst hefur þessi tala farið í 3.500 mismunandi einstaklinga. Hægt er að skoða aðsóknartölur hjá Samræmdri vefmælingu.

Mig langar til að þakka öllu þeim hlaupurum sem heimsækja vefinn reglulega og vona að þeir haldi því áfram um ókomna framtíð.

Á næstunni mun hlaup.is vera með ýmis tilboð í verslun sinni vegna 10 ára afmælisins og verða vonandi viðtökur góðar. Sjáumst í Reykjavíkurmaraþoni Glitnis!

Torfi H. Leifsson

PS. Í haus vefsíðunnar er upprunalegt logo fyrir hlaup.is, sem þá var eingöngu kölluð Hlaupasíðan.