Hlynur Andrésson bætti eigið Íslandsmet í 5000m hlaupi

birt 22. apríl 2018

Eyjamaðurinn Hlynur Andrésson hljóp á nýju Íslandsmeti í 5 km hlaupi á braut á háskólamóti í Charlottesville í Bandaríkjunum. Hlynur hljóp á 13:58:91 og bætti eigið Íslandsmet sem er ársgamalt um tvær sekúndur. Fyrir mánuði síðan sló Hlynur Íslandsmet Kára Steins Karlssonar í 10 km hlaupi á braut og er því greinilega í feyknaformi þessa dagana. Þessi 25 ára Vestmannaeyingur útskrifast úr Eastern Michigan háskólanum í vor.Eins og hlaup.is hefur áður greint frá ætlar Hlynur sér að gera atlögu að lágmarkinu fyrir EM í  Berlín í 5000m hlaupi eða 3000m hindrunarhlaupi. Þess má geta að EM lágmarkið í 5000m hlaupi er 13:42:00 en Hlynur er er á fljúgandi ferð þessa dagana og það er aldrei að vita nema hann verði á brautinni í  Berlín í ágúst.Eins og áður segir útskrifast Hlynur úr háskólanámi vestanhafs í vor, en keppnistímabilið í Bandaríkjunum hefur hindrað hann í að vera í toppformi yfir íslenska hlaupasumarið. Það er því ansi líklegt að Hlynur komi eins og stormsveipur inn í íslenska hlaupasenu áður en langt um líður, velji hann að skjóta rótum hér á landi.