Hlynur Andrésson setti glæsilegt Íslandsmet í maraþonhlaupi, þegar hann hljóp sitt fyrsta maraþon í Dresden í Þýskalandi í dag sunnudaginn 21. mars. Hlynur hljóp á tímanum 2:13:37 og bætti met Kára Steins 2:17:12 um þrjár og hálfa mínútu.
Hlynur hljóp jafnt hlaup þar sem hann var í nokkurra hlaupara hóp sem var alltaf aðeins á eftir sigurvegaranum og fyrsta manni allt hlaupið, Simon Boch frá Þýskalandi sem hljóp á 2:10:48. Hlynur var á 2:11:32 hraða eftir 35 km en gaf aðeins eftir í restina og rétt missti því af Ólympíulágmarkinu sem hann stefndi að. Það var augljóst á svip Hlyns eftir að hann kom í mark að það voru mikil vonbrigði að ná ekki Ólympíulágmarkinu, þrátt fyrir glæsilegt Íslandsmet.
Það er enginn vafi á því að framtíðin er björt fyrir Hlyn og hann á eftir að bæta þennan tíma í framtíðinni.
Aðstæður voru þokkalegar, um 5-7°C hiti, þurrt og lítill vindur. Hlaupin var 5 km lokuð slaufa í almenningsgarði í Dresden og einungis nokkrir tugir hlaupara tóku þátt.
Sjá einnig viðtal við Hlyn sem hlaup.is tók við hann eftir að hann var kosinn langhlaupari ársins 2020.