Hlynur bætti 36 ára gamalt Íslandsmet í 10 km hlaupi

birt 25. mars 2019

Hlynur Andrésson varð fyrstur Íslendinga til að hlaupa 10 km götuhlaup undir 30 mínútum þegar hann hljóp á 29:49 mín. í Parrelloop hlaupinu í Hollandi í gær. Hlynur kom 27. í mark, en Úgandabúinn Mande Buschendich bar sigur úr býtum á 27:56 mín.

Hlynur bætti þar með 36 ára gamalt Íslandsmet Jóns Diðrikssonar í 10 km götuhlaupi. Íslandsmetið sem Jón setti í Þýskalandi árið 1983 var 30:11 mín. Hlynur á jafnframt Íslandsmetið í 10.000 m hlaupi á hlaupabraut. Það er 29:20,91 sett í Charlottesville í Bandaríkjunum í apríl í fyrra.

Þessi efnilegi hlaupari sem hefur undanfarin ár hlaupið mest á braut er farinn að færa sig í auknum mæli yfir í götuhlaup eftir að hafa lokið námi í Bandaríkjunum síðasta vor.

Til samanburðar má bæta við að Arnar Pétursson hljóp á sínum besta tíma 31:03 í 10 km hlaupi fyrr í mánuðinum, sem er rúmlega mínútu lakari tími en Hlyns.

24. mars gjöfull fyrir íslenska hlaupara

Án þess að varpa skugga á afrek þessara tveggja framvarða íslenska hlaupasamfélagins skal ávallt hafa í huga að hlauparar geta verið á mismunandi stað í sínum æfingaprógrömmum. En eitt er ljóst að það verður fróðlegt að fylgjast með þessum frábæru hlaupurum í sumar, vonandi fáum við tækifæri til að sjá þá etja kappi hvor við annan í 10 km hlaupi eða öðrum vegalengdum.

24. mars var svo sannarlega gjöfull íslenska hlaupasamfélaginu en ásamt Íslandsmeti Hlyns þá hlupu Arnar Pétursson og Elín Edda Sigurðardóttir frábær hálfmaraþon í gær með tilheyrandi bætingum.

Hlynur á nú fjögur gild Íslandsmet í metaskrá Frjálsíþróttasambands Íslands. Hann á Íslandsmetin í 5000 m hlaupi, 10.000 m hlaupi, 3000 m hindrunarhlaupi og nú í 10 km götuhlaupi.

Þessi frétt er birt með fyrirvara, ennþá á eftir að staðfesta Íslandsmet Hlyns af þar til bærum aðilum.

Frétt Hlaup.is um hálfmaraþon Elínar Eddu.
Frétt Hlaup.is um hálfmaraþon Arnars Péturssonar.

Heimild: Frjálsíþróttasambands Íslands.