Íslandsmeistaramótið í Herbalife hálfum járnmanni verður haldið í sjötta sinn á sunnudaginn 13. júlí. Allt helsta þríþrautarfólk landsins tekur þátt í mótinu en þátttaka hefur farið vaxandi undanfarin ár í ljósi vaxandi vinsælda þrekþrauta af þessu tagi bæði hér heima og erlendis.
Keppnin í ár hefst kl. 09:00 í Ásvallalaug í Hafnarfirði þar sem syntir verða 1900 metrar. Þá verða hjólaðir 90 kílómetrar á Krísuvíkurvegi og loks hlaupið hálft maraþon, 21,1 kílómetri, í fögru umhverfi Hafnarfjarðar.
Keppt verður í tveimur aldursflokkum, 18 til 39 ára og 40 ára + , og veitt verðlaun fyrir þrjú efstu sætin í karla- og kvennaflokki. Boðið er upp á liðakeppni þar sem hámarksfjöldi í hverju liði eru þrír einstaklingar. Liðin geta verið blönduð og ekki verður um aldursflokkaskiptingu að ræða.