Íslendingar hlaupa í kringum jörðina

uppfært 25. ágúst 2020

Á erfiðum tímum þá sameinast íslenska þjóðin á hinum ýmsu sviðum þjóðlífsins. Þar eru jákvæðir hlauparar engin undantekning. Nú er í gangi skemmtilegt samfélagsátak Hlaupum í kringum jörðina þar sem þátttakendur sameinast um að hlaupa í kringum jörðina. Allir eru velkomnir að taka þátt, ekki síst íslenska hlaupasamfélaginu.  

Þegar þessi orð eru skrifuð (að kvöldi 25. mars) eru þátttakendur „komnir" til Flórens, hafa hlaupið 3602 km eða 8% af vegalengdinni í kringum jörðina.

„Tökum fram skó og sokka og förum út að ganga, trimma, hlaupa og skokka (en sleppum því í bili ef við erum slöpp). Gerum það sem við getum til að halda skapinu og skrokknum í lagi þótt það sé voðalegt vesen útum allt. Skráið inn fjölda kílómetra þegar þið farið út að hreyfa ykkur í íslensku fegurðinni (með tvo metra milli manna) og smám saman komumst við alla leið í kringum hnöttinn og lengra en það," segir á heimasíðu þessa skemmtilega verkefnis sem nefnist hlaup.bjortuhlidarnar.is.

Hægt er að skrá inn sína kílómetra og fræðast um verkefnið á vefsíðunni hlaup.bjortuhlidarnar.is.

Verkefnið á rætur sínar að rekja til Facebook hópsins „Björtu hliðarnar"  sem stofnaður var sem vettvangur fyrir landsmenn til að létta lundina á erfiðum tímum og vonandi gera eitthvað uppbyggilegt í leiðinni.