Íslendingar er sú þjóð sem bætti sig mest í maraþonhlaupum á milli áranna 2009-2014. Meðaltími íslenskra maraþonhlaupara var 34 mínútum og 47 sekúndum skemmri árið 2014 en 2009. Þetta kemur fram í tveggja ára gamalli grein sem hlaup.is fékk ábendingu um fyrir skömmu. Þó niðurstöðurnar hafi verið kynntar fyrir réttum tveimur árum eru þær að sjálfsögðu forvitnilegar þegar rýnt er í þær, ekki síst fyrir okkur Íslendinga. Rannsóknin sem var ein stærsta sinnar tegundar var framkvæmd af fyrrum keppnishlaupara og tölfræðingi úr viðskiptaháskólanum í Kaupmannahöfn. Þar var árangur í maraþonum og fjöldi maraþonhlaupara skoðaður og borin saman á milli landa.
Mynd af heimasíðu runrepeat.com.
Í rannsókninni kemur fram að sé meðaltími karla í heiminum skoðaður séu þeir íslensku hlutskarpastir allra með tímann 3:52:01. Það sama er uppi á teningnum hjá konunum, þær íslensku eiga besta meðaltíma allra þjóða eða 4:18:29. Þetta hlýtur að bera maraþonhlaupurunum okkar einstaklega gott vitni, þó auðvitað sé vitað að hraði er ekki allt. Þess má geta að hlauparar frá 47 löndum voru til skoðunar.
Um íslenska hlaupara
- Fjöldi maraþonhlaupa Íslendinga jókst um 72% á tímabilinu. Íslendingar eru í 14. sæti af 47 þjóðum þegar kemur að aukningu á fjölda maraþonhlaupa á áðurnefndu tímabili.
- Þegar kynjaskipting er skoðuð kemur í ljós að Ísland er í fjórða sæti þegar kemur að hlut kvenna í hlutfalli af heildarfjölda hlaupinna maraþona frá 2009-2014. Íslenskar konur hlupu 36% maraþona á tímabilinu en karlar 64%. Þess má geta að Bandaríkjamenn voru í fyrsta sæti en hlutur kvenna þar var 45% en aftur á móti var hlutur kvenna á Spáni aðeins 6%
- Ísland er í fjórða sæti þegar meðalhraði í maraþonhlaupi er skoðaður með tímann 4:01:32.
- Sé aðeins meðaltími karla skoðaður kemur í ljós að þeir íslensku eru með besta meðaltíma allra þjóða eða 3:52:01
- Sé meðaltími kvenna skoðaður kemur í ljós að þær íslensku eiga einnig besta meðaltíma allra þjóða eða 4:18:29.
Áhugaverðar staðreyndir í rannsókninni
- Maraþonhlaup er að meðaltali hlaupið á 4:21:21. Karlar 4:13:23 og konur 4:42:33
- 13,3% fleiri maraþon voru hlaupin árið 2014 en 2009. Þar af 92% fleiri í Asíu en 10% fleiri í Evrópu. Maraþonhlaup kvenna jukust um 27% á tímabilinu en karla um 8%
- Karlar eru 70% þeirra sem hlaupa maraþon ef allur heimurinn er skoðaður en konur 30%.
Um rannsóknina
- Aðeins áhugahlauparar voru til skoðunar, ekki svokallaðir elítuhlauparar.
- Í rannsókninni voru til skoðunar gögn frá maraþonum árið 2009-2014 í eftirfarandi borgarmaraþonum: Chicago, Marine, Boston, London, París, Berlin, Frankfurt, Aþena, Amsterdam, Búdapest, Varsjá og Madrid.
- Daninn Jens Jakob Andersen, fyrrum keppnishlaupari og tölfræðingur úr viðskiptaháskólanum í Kaupmannahöfn leiddi rannsóknina.
Nánar má lesa um rannsóknina á vef runrepeat.com.