Íslenskt app fyrir hlaupara í pípunum

uppfært 25. ágúst 2020

 Íslenska nýsköpunarfyrirtækið Driftline og afrekshlauparinn Arnar Pétursson gerðu nýverið með sér samning um samstarf hvað varðar þróun og markaðssetningu á íslenska hlaupaappinu Runmaker. Runmaker greinir hjartsláttarmælingar hlaupara og vinnur með öllum helstu hlaupaúrum á markaðnum, s.s. Apple Watch, Garmin, Polar og Fitbit. Virkni Runmaker byggir á uppgötvunum stofnenda Driftline og felur meðal annars í sér nýja skilgreiningu á hugtakinu þol (e. Endurance), sem fram að þessu hefur ekki verið mælanlegt með beinum hætti.

Á lokastigi þróunar

Runmaker getur reiknað út æfingaþröskulda, hámarkspúls og hámarkshraða, og reiknað út spátíma fyrir allar vegalengdir með auðveldum hætti út frá einu rólegu hlaupi. Runmaker gefur þannig mun ítarlegri upplýsingar en ef framkvæmd væru gríðarlega krefjandi þolpróf á rannsóknarstofu. Búið er að sannreyna mælingar Runmaker með mælingum á rannsóknastofu HR og appið er nú á lokastigum þróunar. Stefnt er að því að markaðssetja Runmaker á alþjóðlegum markaði snemma á næsta ári.

Hlaupa app
Arnar og þróunarteymi appsins.

Flest vinsælustu hlaupaöppin á markaðnum í dag byggja fyrst og fremst á því að rekja hlaupaleiðir notandans og reikna síðan út vegalengd og hraða. Mælingar á eiginleikum notandans sjálfs eru hins vegar yfirleitt mjög takmarkaðar og gagnlitlar. Runmaker mun þannig væntanlega hafa mikla sérstöðu gagnvart öðrum hlaupaöppum á markaði og veita hlaupurum nýja, byltingarkennda sýn á eigin hlaupagetu. Með Runmaker munu hlauparar einnig geta æft samkvæmt persónulegri æfingaáætlun sem byggir á Runmaker hlaupaprófíl notandans. Runmaker mun einnig nýtast íþróttafólki úr öðrum greinum s.s. hjólreiðum og boltaíþróttum. 

Arnar til liðs við Driftline

Eigendur Driftline eru feðgarnir Agnar Steinarsson líffræðingur og Steinar Sindri Agnarsson tölvunarfræðingur og standa þeir alfarið á bak við þróun Runmaker fram að þessu. Þeir hafa nú fengið mikinn liðsstyrk með gerð samstarfssamnings við Arnar Pétursson sem er líklega þekktasti langhlaupari landsins og margfaldur Íslandsmeistari í maraþonhlaupi og ýmsum öðrum greinum. Hlutverk Arnars til að byrja með verður að miðla af sérþekkingu sinni á sviði hlaupaþjálfunar og semja þjálfunaráætlanir fyrir Runmaker. Hann mun einnig taka þátt í hönnun á notendaviðmóti og markaðssetningu Runmaker. Hann mun líka nota Runmaker persónulega og innskotsmyndin hér til hliðar sýnir einmitt Runmaker prófíl Arnars.

Hlaupaapp

Driftline hlaut í fyrra Sprotastyrk Tækniþróunarsjóðs til þess að vinna að þróun Runmaker og hefur jafnframt fengið styrki frá Nýsköpunarmiðstöð Íslands og Uppbyggingarsjóði Suðurnesja. Driftline vinnur nú að einkaleyfaumsókn í samstarfi við einkaleyfaskrifstofuna Árnason Faktor og hlaut til þess styrk frá Tækniþróunarsjóði.