Snorri Björnsson ræddi við einn fremsta langhlaupara landsins, Arnar Pétursson í nýjum hlaðvarpsþætti (podcast) sínum, The Snorri Björns Podcast Show. Snorri ræddi við Arnar Sigurðsson um langhlaup í síðasta þætti eins og kom fram í frétt Hlaup.is. Hlusta má á viðtalið neðst á síðunni. Einnig má finna "The Snorri Björns Podcast Show" inn á öllum helstu hlaðvarpsveitum.
Þeir félagar fara yfir víðan völl í spjalli sínu og ræða hlaupin í víðu samhengi. Íslenska hlaupasamfélagið getur hugsað sér gott til glóðarinnar, enda er viðtalið rúmar tvær klukkustundir. Óhætt er að mæla með þessari frábæru viðbót við íslenska hlaupasamfélagið en Snorri hyggst í það minnsta gera einn þátt til viðbótar tileinkuðum langhlaupum. Við hvetjum hlaupara til að halla sér aftur og hlusta á þetta skemmtilega viðtal eða setja heyrnatólin í eyrun og hlusta á hlaupum.
"Arnar var nífaldur Íslandsmeistari í ýmsum halupum árið 2017. Hann var efnilegur körfuboltamaður sem sneri sér að hlaupum eftir að hafa fengið smjörþefinn af árangri á þeim vígvelli þegar hann hljóp sitt fyrsta maraþon, gegn vilja foreldra sinna, og sló óvart 30 ára gamalt íslandsmet í leiðinni," segir Snorri um spjall sitt við Arnar.
"Við töluðum um óhefðbundnar leiðir að bætingum eins og t.d. 50 klukkustunda föstuna sem Arnar kláraði rétt fyrir podcastið, markmiðasetningu, hvernig á að bæta sig, af hverju stærstu mistökin sem fólk gerir er að hlaupa of hratt þegar það fer út að hlaupa, að raka á sér lappirnar, hlaupa maraþon á nærbuxunum og hið sturlaða keppnisskap sem býr í manninum sem tekur flugvélina brosandi í mark þegar hann sigrar hin og þessi langhlaup," bætir Snorri við.