Kári Steinn Karlsson, Breiðablik, varð 3. á Norðurlandameistaramótinu í 10 km hlaupinu sem fram fór í Kaupmannahöfn í dag. Kári kom í mark á tímanum 29 mín 50,56 sek. Sigurvegari varð Norðmaðurinn Asbjörn Ellefsen á 29:47,03 mín og í öðru sæti var Daninn Michale Nielsen á 29:47,64 mín.
Kári Steinn varð fyrir því óhappi að detta í hlaupinu þegar 1500 m var ólokið og hann nýbúinn að taka forystu með það markmið að hlaupa keppinauta af sér. Kári Steinn fór létt með hraðann í hlaupinu og var búinn að spara sig fyrir langan endasprett. Þegar hann stóð upp eftir fallið og lagði af stað aftur voru 6 hlauparar komnir vel á undan.