Íslandsmethafinn í maraþonhlaupi, Kári Steinn Karlsson, heldur fyrirlestur um langhlaup á Hótel KEA á Akureyri föstudaginn 18. nóvember kl. 20.00.
Fyrirlesturinn er öllum opinn og er aðgangur ókeypis.
Kári Steinn, sem er Íslandsmeistari í 5.000, 10.000 metrum og hálfu maraþoni, hljóp sitt fyrsta maraþonhlaup í haust í Berlín og setti þar glæsilegt Íslandsmet og tryggði sér um leið farseðilinn á Ólympíuleikana í London sumarið 2012.
Í fyrirlestrinum á Hótel KEA fjallar Kári Steinn um hlaupaferil sinn og bakgrunn. Þá ræðir hann um æfingar langhlaupara, mataræði og hugarfar auk þess sem hann fer yfir undirbúninginn fyrir Berlínarmaraþonið og hvernig hann kemur til með að haga æfingum fyrir Ólympíuleikana í London.