Hin stórefnilegu Kári Steinn Karlsson UMSS og Íris Anna Skúladóttir Fjölni báru örugga sigra úr býtum í fyrsta hlaupi af fjórum í Víðavangshlauparöð Framfara og New Balance.
Hlaupið fór fram laugardaginn 2.okt á nokkuð þungri og erfiðri hlaupaleið neðan við Borgarspítalann. Kári Steinn hljóp u.þ.b. 3,5 km á 11:41 mín, annar varð Stefán Guðmundsson Breiðabliki á 11:50 mín og þriðji Þorbergur Ingi Jónsson UMSS á 12:22 mín. Stefán og Þorbergur fylgdu Kára Steini vel eftir fyrst af stað en urðu að gefa eftir á seinni hlutanum.
Íris Anna hljóp langfyrst kvenna alla leiðina, sem var rúmlega 2,6 km og kom í mark á tímanum 9:54 mín. Næstar urðu félagar Írisar úr Fjölni, þær Arndís Ýr Hafþórsdóttir og Stefanía Hákonardóttir á 11:50 mín og 13:12 mín.
Kári Steinn, sem er 18 ára, og Íris Anna, sem er 15 ára, hafa slegið hvert unglingametið á fætur öðru sl. misseri og hafa nú þegar áunnið sér sæti í landsliði Íslands í frjálsum íþróttum. Skiljanlega er því búist við miklu af þeim í framtíðinni.
Næsta hlaup fer fram laugardaginn 23. okt kl. 14 fyrir neðan Borgarspítalann og eru áhorfendur velkomnir!