Kári Steinn virkar í feiknaformi um þessar mundir.Kári Steinn Karlsson setti glæsilegt Íslandsmet í Berlínarhálfmaraþoninu í morgun, sunnudag. Hann hljóp á tímanum 1:04:55 og bætti því gamla metið sem hann átti sjálfur um 18 sekúndur. Gunnar Páll Jóakimsson þjálfari Kára Steins greindi frá tíðindunum á Fésbókarsíðu sinni.Í Fésbókarfærslu Gunnars segir að Kári Steinn hafi aukið hraðann jafnt og þétt nær allt hlaupið, fyrstu fimm kílómetrana hafi meðaltíminn á hvern kílómetra verið 3:04 mínútur, frá 5-10 km hafi tíminn verið 3:09 og á 10-15 km 3:05. Okkar maður gaf svo í á lokasprettinum, sýndi mikið keppnisskap og hljóp kílómetrann á 3:03 mínútum að meðaltali.Annað Íslandsmet í Hamborg eftir mánuð?Það er því morgunljóst að Kári Steinn er í feiknaformi um þessar mundir enda stefnir hann á að tryggja sig inn á Ól í Ríó 2016 á næstu misserum. Í ljósi árangursins í dag verður einkar spennandi að sjá hvort Kári Steinn nái að höggva nærri Íslandsmeti sínu í maraþonhlaupi þegar hann tekur þátt í Hamborgarmaraþoninu 26. apríl næstkomandi.Þorbergur Ingi Jónsson tók einnig þátt í sama hlaupi og bætti sinn besta tíma um fjórar sekúndur, hljóp á 1:07:53, þrátt fyrir að hafa átt við veikindi og meiðsli að stríða í vikunni.Lesið nýlegt viðtal hlaup,is við Kára Stein um komandi verkefni.
birt 29. mars 2015