Kári Steinn slær Íslandsmetið í hálfu maraþoni

birt 21. ágúst 2011

Í hálfmaraþoni Reykjavíkurmaraþons sigraði Kári Steinn Karlsson með því að slá 25 ára gamalt Íslandsmet Sigurðar Péturs Sigmundssonar. Tími Kára Steins var 1:05:35. Í kvennaflokki sigraði Rannveig Oddsdóttir á tímanum 1:24:05. Rannveig sigraði einnig í Reykjavíkurmaraþoninu í fyrra en þá í maraþoni.


Kári Steinn kemur í mark á nýju Íslandsmeti í hálfu maraþoni

Veronika Sigríður Bjarnadóttir og Arnar Pétursson sigruðu í maraþoni. Arnar á tímanum 2:44:18 og Veronika á 3:02:42. Ásamt því að vera sigurvegarar í Reykjavíkurmaraþoni Íslandsbanka 2011 eru þau Arnar og Veronika Íslandsmeistarar í maraþoni.

Sigurvegarar í 10 km hlaupinu voru þau Arndís Ýr Hafþórsdóttir og Þorbergur Ingi Jónsson. Þau náðu bæði að tryggja sér sigur á Powerademótaröðinni 2011 um leið en Reykjavíkurmaraþonið var fimmta og síðasta hlaupið á mótaröðinni þetta sumarið.

Í boðhlaupinu sigraði liðið Sigurvon en það skipa þeir Benedikt Sigurðsson, Óskar Ragnar Jakobsson, Daníel Jakobsson og Bergþór Ólafsson. Samanlagður tími þeirra var 2:47:28.

Þátttökumet var slegið í hlaupinu í dag því 12.481 voru skráðir í öllum sex vegalengdunum. Einnig var slegið þátttökumet í öllum keppnisvegalengdum hlaupsins. Í maraþon voru skráðir 684, hálfmaraþon 1.852, 10 km hlaupið 4.431, 33 lið og 116 hlauparar í boðhlaup, 1970 í 3 km skemmtiskokk og 3.428 í Latabæjarhlaupið.

Upplýsingar af vef marathon.is