Konur í meirihluta í stærstu hlaupunum á Íslandi

birt 25. mars 2014

Í kjölfar fréttar (sjá hér) sem birtist á hlaup.is í gær um þátttöku kvenna í almennings- og keppnishlaupum víða um heim, tókum við á hlaup.is saman tölur um þátttöku íslenskra kvenna í þremur stærstu hlaupunum hér á landi.Tölurnar eru frá 2013 og um er að ræða Reykjavíkurmaraþonið, Miðnæturhlaupið og Gamlárshlaup ÍR. Fljótt á litið virðast íslenskar konur ansi duglegar að taka þátt í hlaupum en rétt eins sænsku kynsystur sínar þá dregur úr þátttökunni eftir því sem vegalengdirnar eru lengri.
Ef litið er til heildarfjölda þátttakenda í þessum þremur fjölmennstu hlaupum á Íslandi kemur í ljós að konur eru ögn fjölmennari en karlar eða 52% þátttakenda.Karlarnir í meirihluta í lengri vegalengdumEf við lítum aðeins á Reykjavíkurmaraþonið sem er langfjölmennasta hlaupið, þá voru konur 52% af heildarfjölda þátttakenda á síðasta ári. Sé rýnt nánar í tölurr er varða þátttakendur í Reykjavíkurmaraþoni kemur í ljós að konurnar eru mun duglegri að taka þátt í 10 km, eru rétt tæplega 60% þátttakenda. En síðan fer að halla undan fæti, konur voru 46% þátttakenda í hálfmaraþoni og aðeins 25% þátttakenda í maraþonhlaupinu.Svipaða sögu má segja um Miðnæturhlaupið. Konur voru 60% heildarfjölda þáttakenda. Þær voru 70% þátttakenda í 5 km hlaupinu, 52% þátttakenda í 10 km hlaupinu en aðeins 38% í hálfmaraþoninu.

Að lokum voru konur 41% þátttakenda en karlar 59% í Gamlárshlaupi ÍR sem er 10 km hlaup.

Heilt yfir þá taka fleiri konur en karla þátt í þremur stærstu hlaupunum á Íslandi. Hins vegar virðist það svo að konur forðist lengri vegalengdirnar frekar en karlar sem eru þar í miklum meirihluta. Erfitt er að fullyrða um ástæður þar að baki en að sjálfsögðu þarf þetta ekki að vera neikvætt, hver hlaupari velur sér vegalengd eftir sínu höfði. Mestu máli skiptir AÐ TAKA ÞÁTT OG HLAUPA.