birt 12. janúar 2013

Valnefnd hlaup.is hefur tilnefnt 5 konur og 5 karla sem þú getur kosið um sem hlaupara ársins.

Allir sem kjósa hafa möguleika á að vinna Brooks hlaupaskó. Útdráttarverðlaunin verða afhent á verðlaunaafhendingu fyrir hlaupara ársins laugardaginn 19. janúar.

Nánari upplýsingar og hlekkur á kosningaformið.

Eftirfarandi hlauparar voru tilnefndir.

Tilnefndir í karlaflokki (í stafrófsröð):

Birgir Sævarsson (40 ára) setti nýtt Íslandsmet í flokki 40-44 ára þegar hann hljóp á 2:35:29 klst. í Frankfurt maraþoni. Tími hans er jafnframt þriðji besti tíminn á árinu. Birgir hefur sýnt ótrúlega mikinn stöðugleika í maraþonhlaupi en þetta er fjórða árið í röð sem hann hleypur vegalendina á 2:35 klst (nánar tiltekið 2:35:51 - 2:35:40 - 2:35:26 - 2:35:29).  Björn Margeirsson (33 ára) sigraði í Laugavegshlaupinu 55 km á nýju brautarmeti, hljóp á 4:19:55 klst. og bætti þar með met Þorbergs Inga Jónssonar um mínútu. Þá sigraði hann í Esjuhlaupinu 2 hringir (1:27:50). Þar fyrir utan lagði Björn áherslu á keppni í styttri hlaupum og sigraði m.a. í 10 km Miðnæturhlaupsins (33:00) og 10 km RM (32:48) og var auk þess með annan besta árstímann í 5 km hlaupi (15:42).  Friðleifur K. Friðleifsson (42 ára) tók þátt í mörgum hlaupum á árinu og stórbætti jafnan fyrri árangur sinn. Hljóp á 2:37:40 klst. í Chicago maraþoni sem er fjórði besti tími ársins og varð þriðji í hálfmaraþoni RM á 1:16:45 klst. Þá varð Friðleifur annar í Laugavegshlaupinu (4:24:03) skammt á eftir Birni Margeirssyni, sigraði í Snæfellsjökulshlaupinu (1:37:55), Esjuhlaupinu 5 hringir (4:07:23) og Jökulsárhlaupinu 32,7 km (2:14:43).  Kári Steinn Karlsson (26 ára) varð í 42. sæti í maraþonhlaupi á Ólympíuleikunum í London á 2:18:47 klst. sem er hans næstbesti tími á vegalengdinni. Hann byrjaði hlaupið fremur rólega en vann sig upp jafnt og þétt er á leið. Kári Steinn náði jafnframt besta tíma ársins í hálfmaraþoni er hann hljóp á 1:06:51 klst. í Hamborg svo og í 10 km (30:18) þegar hann varð Íslandsmeistari á Akureyri. Þá varð Kári Steinn Íslandsmeistari í hálfmaraþoni (1:12:42) á Selfossi.  Þorbergur Ingi Jónsson (30 ára) hljóp sitt fyrsta maraþon í Frankfurt og náði þriðja besta tíma Íslendings frá upphafi, 2:26:00 klst. Áður hafði hann sigrað í hálfmaraþoni RM á 1:09:20 klst. sem er fjórði besti tími Íslendings frá upphafi á vegalengdinni. Þorbergur lét að sér kveða í öðrum hlaupum og setti m.a. brautarmet í Þorvaldsdalsskokkinu (1:47:12), í Barðsneshlaupinu (1:54:49), Grafningshlaupinu (1:33:51) og hálfmaraþoni Miðnæturhlaupsins (1:11:40).

Tilnefndar í kvennaflokki (í stafrófsröð):

Arndís Ýr Hafþórsdóttir (24 ára) varð Íslandsmeistari í 10 km hlaupi kvenna er fram fór á Akureyri á sínum besta tíma, 36:55 mín. sem jafnframt var besti tími ársins. Þá varð hún þriðja í hálfmaraþoni RM á 1:24:30 klst. í sínu fyrsta hlaupi á þeirri vegalengd. Auk þess sigraði Arndís í stigakeppni vetrarhlaupa Powerade 10 km og náði öðrum besta tíma ársins í 5 km (18:14).  Martha Ernstsdóttir (48 ára) er síður en svo hætt keppni. Hún sigraði í hálfmaraþoni RM á besta árstímanum á vegalendinni, 1:22:55 klst. Þá náði hún þriðja besta tíma ársins í 10 km með því að sigra í Óshlíðarhlaupinu á 37:26 mín og þriðja besta tíma ársins í 5 km (18:25). Ósk Vilhjálmsdóttir (50 ára) sigraði í flokki kvenna 50-54 ára í Amsterdam maraþoni, hljóp á 3:15:34 klst. sem er fjórði besti tími ársins. Hún bætti sinn fyrri árangur um tæpar þrjár og hálfa mín. Þá varð hún önnur á Íslandsmeistaramótinu í hálfmaraþoni á 1:32:35 klst. sem fram fór á Selfossi. Rannveig Oddsdóttir (39 ára) náði næstbesta árangri íslenskrar konu frá upphafi í maraþonhlaupi þegar hún hljóp á 2:52:39 klst. í Berlín. Hún varð einnig önnur í hálfmaraþoni kvenna í RM er hún hljóp á 1:23:14 klst. sem er hennar besti tími og næstbesti tími ársins. Þá varð hún önnur í Meistaramóti Íslands í 10 km götuhlaupi á sínum besta tíma (37:11) sem jafnframt er næstbesti tími kvenna í þeirri vegalengd á árinu. Sigurbjörg Eðvarðsdóttir (54 ára) hljóp á 3:07:54 klst. í Frankfurt sem er annar besti tími ársins í kvennaflokki. Sigurbjörg var einungis rúmri mínútu frá sínum besta árangri. Hún hefur sýnt mikinn stöðugleika þar sem hún hefur hlaupið á 3:06-3:07 undanfarin þrjú ár. Þá hljóp Sigurbjörg best 41:26 mín. í 10 km (4. sæti í Miðnæturhlaupinu) og náði sínum besta tíma í 5 km (19:51).