Annie Bersagel hefur átt magnaðan feril.Ein fremsta maraþonkona Bandaríkjanna, Annie Bersagel mun segja frá reynslu sinni og áherslum á kvöldfundi í Íþróttamiðstöðinni í Laugardal, þriðjudagskvöldið 4. október næstkomandi. Fundurinn hefst kl. 20:00 og er öllum opinn. Aðgangseyrir er enginn en tekið er við frjálsum framlögum, t.d. 500 kr/mann, upp í kostnað við húsnæði og kaffiveitingar. Hlaup.is í samvinnu við Stefán Gíslason stendur fyrir fundinum.Annie Bersagel (f. 1983) er ein af fáum heimsklassa maraþonhlaupurum sem stundar hlaupin með fullri vinnu. Hún er lögfræðingur frá Stanford University, fædd og uppalin í Colorado en búsett í Osló, þar sem hún starfar sem sérfræðingur í ábyrgum fjárfestingum hjá lífeyris- og tryggingasjóðnum KLP.
Lögfræðingurinn frá Stanford á magnaðan feril
Á skólaárunum var Annie margfaldur bandarískur háskólameistari í víðavangshlaupum og langhlaupum og bandarískur meistari í hálfu maraþoni 2006. Hún náði 13. sæti á heimsmeistaramótinu í hálfu maraþoni í Kaupmannahöfn 2014 á 1:10:10 klst, sem er hennar besti tími til þessa. (Þar kepptu einmitt 6 Íslendingar).
Annie varð bandarískur meistari í maraþonhlaupi þegar hún vann Twin Cities maraþonið haustið 2013 á 2:30:53 klst, sem var rúmlega 13 mínútna bæting á hennar besta tíma. Vorið 2014 varð hún fyrsti Bandaríkjamaðurinn til að vinna Düsseldorfmaraþonið (2:28:59 klst) og ári síðar endurtók hún leikinn og náði sínum besta tíma til þessa, 2:28:29 klst, eftir að hafa dottið illa snemma í hlaupinu. Hún keppti á bandaríska úrtökumótinu fyrir Ólympíuleikana í Ríó en varð að hætta vegna meiðsla. Annie gekkst undir aðgerð á hné sumarið 2015 og hefur ekki enn náð sér að fullu.
Bestu tímar Annie Bersagel til þessa
3000 m9:27,09 mínChapel Hill, NC (inni)20055000 m15:46,16 mínManchester201310000 m32:54,08 mínEugene, OR201115 km49:49 mínKaupmannahöfn201420 km1:06:34 klstKaupmannahöfn2014Hálfmaraþon1:10:10 klstKaupmannahöfn2014Maraþon2:28:29 klstDüsseldorf2015Heimild: Alþjóða frjálsíþróttasambandið (IAAF)
Fundurinn á þriðjudagskvöldið hefst með framsögu Annie, þar sem hún mun m.a. segja frá því sem heldur henni við efnið, hvernig henni tekst að sameina fulla vinnu og þátttöku í hlaupum á heimsmælikvarða, hvernig hún tekst á við meiðsli o.s.frv. Í framhaldinu gefst færi á að ræða málin frá ýmsum hliðum yfir kaffibolla (eða tebolla). Gert er ráð fyrir að fundinum ljúki í síðasta lagi kl. 22.
Æskilegt er að fólk skrái sig til þátttöku í fundinum á Facebook viðburðinum til að auðveldara sé að undirbúa kaffiveitingarnar. Ástæða er til að hvetja hlaupara og áhugafólk um hlaup til að fjölmenna á fundinn.