birt 21. júní 2009

Ég hef að undanförnu heyrt að sá misskilningur sé uppi að Landsmótshlaupið 2009 sé lokað hlaup fyrir keppendur héraðssambanda og íþróttabandalaga sem senda sveitir til keppni í fjölmörgum greinum á Landsmóti UMFÍ 9.-12. júlí nk.  Til þess að taka af allan vafa skal hér undirstrikað að Landsmótshlaupið er eins og hvert annað almenningshlaup og er öllum opið.

Forskráning er fyrir nokkru hafin hér á hlaup.is og er vert að taka fram að þátttökugjaldið hækkar frá og með 1. júlí nk. Því er um að gera að skrá sig sem allra fyrst.

Skráning hér á hlaup.is stendur til 9. júlí kl. 20. Föstudaginn 10. júlí, daginn fyrir hlaup, verður unnt að skrá sig í hlaupið í upplýsingamiðstöð  Landsmóts UMFÍ í Glerárskóla á Akureyri. Skráningu lýkur þann dag kl. 17. Þeir sem skrá sig í Glerárskóla greiði þátttökugjaldið á staðnum með peningum. Ekki er tekið við greiðslukortum.

Þetta hlaup er í raun árlegt Akureyrarhlaup UFA, sem vegna Landsmóts UMFÍ var ákveðið að yrði hlaupið í tengslum við Landsmótið og af þeim sökum fær það í ár nafnið Landsmótshlaupið 2009. Hlaupið er því ekki keppnisgrein á Landsmótinu, einungis kynningargrein og þar með er það að sjálfsögðu öllum opið.

Til þessa hefur lengsta vegalengdin í Akureyrarhlaupinu verið hálft maraþon, en í tilefni af Landsmótinu var ákveðið að í ár verði líka boðið upp á heilt maraþon. Vegalengdirnar sem eru í boði eru því maraþon, hálft maraþon, 10 km og 3 km skemmtiskokk.

Hlaupið fer fram laugardaginn 11. júlí - sem er raunar stærsti keppnisdagur Landsmóts UMFÍ. Það er því von okkar sem höfum verið að vinna að undirbúningi mótsins að það verði mikið líf og fjör í bænum í kringum Landsmótshlaupið og við væntum þess sannarlega að hlauparar af öllu landinu flykkist til Akureyrar til þess að taka þátt í hlaupinu. Aldrei áður hefur maraþon verið hlaupið á Akureyri og því er hér sannarlega um tímamótahlaup að ræða.

Öllum hlaupunum verður startað á hinum nýja leikvangi Akureyrarbæjar á félagssvæði Íþróttafélagsins Þórs og þeim lýkur að sjálfsögðu einnig þar. Starttímarnir verða sem hér segir:

Kl. 08:00 - Maraþon (þeir sem áætla að hlaupa á yfir 4.30 klst.
Kl. 09:00 - Maraþon (þeir sem áætla að hlaupa undir 4.30 klst.
Kl. 10:00 - Hálft maraþon
Kl. 10.45 - 3 km skemmtiskokk
Kl. 11:00 - 10 km

Sighvatur Dýri Guðmundsson hefur nú þegar mælt  og tekið út hlaupaleiðirnar og er óhætt að segja að þær séu afar skemmtilegar.
Við væntum þess að sjá sem flesta hlaupara hér á Akureyri þann 11. júlí nk. og þeir geti um leið tekið þátt í og notið þeirrar einstöku stemningar sem myndast á landsmótum UMFÍ.

Allar nánari upplýsingar um Landsmótshlaupið eru hér á hlaup.is og hér er, sem fyrr segir, hafin skráning í 10 km, hálft maraþon og maraþon. Engin forskráning er í skemmtiskokkið - þátttakendur í því mæta einfaldlega á leikvanginn tímanlega fyrir starft.  Upplýsingar um Landsmótshlaupið er einnig að finna á heimasíðu Landsmóts UMFÍ - landsmotumfi.is

Óskar Þór Halldórsson
verkefnastjóri Landsmóts UMFÍ á Akureyri 2009
oskar@umfi.is