Laugavegsnámskeið hlaup.is framundan

birt 01. mars 2018

Ætlar þú að fara Laugaveginn í ár ? Tíunda árið er hlaup.is og Sigurður P. Sigmundsson fyrrum Íslandsmethafi í maraþoni með undirbúningsnámskeið fyrir Laugaveginn, sem hefst 5. mars með fundi um Laugavegshlaupið og uppbyggingu og skipulag námskeiðsins. Þú æfir í góðum hóp en ert í raun í einkaþjálfun með þína eigin æfingaáætlun, sérsniðna að þér, getu þinni og markmiðum. Komdu í hópinn með okkur og við tryggjum þér skemmtilega vegferð í undirbúningi og hlaupinu sjálfu. Þjálfarar eru Sigurður P. Sigmundsson og Torfi H. Leifsson. Skráning og nánari upplýsingar á hlaup.is.

Árlegur fjöldi hingað til hefur verið á bilinu 30-40 manns og hafa þátttakendur lokið hlaupinu á bilinu 5:00 klst til 9:00 klst. Námskeiðið hentar því fólki á öllum aldri og af mismunandi getustigum. Tekið er mið, í persónulegum áætlunum, af getu hvers og eins og áætlanir sniðnar að markmiðum hvers hlaupara, mánuð í senn.  Allir hafa náð góðum árangri, hver á sinn hátt, en fyrst og fremst er lögð áhersla á að fólk hafi ánægju af þessu verkefni, bæði undirbúningnum og hlaupinu sjálfu.

Athugið að hlauparar þurfa að vera skráðir í Laugavegshlaupið.

Námskeiðið hefst með undirbúningsfundi mánudaginn 5. mars kl. 20:00 í fyrirlestrarsal á 3. hæð í húsi ÍSÍ í Laugardalnum (Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands íþróttamiðstöðinni Laugardal, sjá staðsetningu á ja.is).

Í undirbúningnum felst eftirfarandi:

  • Persónuleg áætlun allan tímann, en til 4 vikna í senn, sem tekur mið af fyrri hlaupareynslu, meiðslum, núverandi stöðu og fleiru.
  • Farið verður sérstaklega í styrktaræfingar sem nýtast fyrir Laugavegshlaupið.
  • Ein samæfing í miðri viku á miðvikudögum. Í Laugardalnum fram í miðjan apríl en eftir það í Laugardalnum, Heiðmörk og víðar.
  • Ráðgert er að fara sameiginlega í nokkrar fjallaæfingar (Esjan, Hengillinn, Helgafell) í maí og júní.
  • Fyrirlestur í upphafi þar sem farið verður yfir alla þætti í undirbúningi, æfingarnar, útbúnað og fleira.
  • Afsláttur af ýmsum hlaupavörum.
  • Aðgangur að þjálfurunum allan tímann í tölvupósti og/eða í síma.
  • Farið yfir ýmsa þjálffræðilega þætti og frekari undirbúning á æfingum.
  • Fyrirlestur einni viku fyrir Laugaveginn þar sem farið verður yfir lokaundirbúninginn.
  • Öllum sem taka þátt í námskeiðinu verður fylgt eftir í Laugavegshlaupinu. Þjálfarar verða til staðar við upphaf hlaups og taka á móti öllum við endamarkið