Eins og kunnugt er lauk Arnar Pétursson ekki Rotterdam maraþoninu sem fram fór sunnudaginn 7. apríl. Í samtali við hlaup.is greindi Arnar frá ástæðum þess að hann hætti keppni. Samkvæmt Arnari þá var lágmörkum og inntökuskilyrðum fyrir maraþonlaupara á Ólympíuleikana í Tokyo 2200 breytt fyrir skömmu.
Í einfölduðu máli þá telja sigrar hlaupara í landskeppnum meira en einstakir tímar í öðrum maraþonum. Af þessum sökum ákvað Arnar að horfa í Reykjavíkurmaraþonið í ágúst og freista þess að ná Íslandsmeistaratitli þar. Til að stilla af álag og æfingaáætlun ákvað Arnar að hlaupa ekki fullt maraþon í Rotterdam heldur nýta hlaupið sem góða æfingu við keppnisskilyrði.
Aðeins 80 keppa í Tokyo
Með þessum breyttu reglum aukast möguleikar Arnars á að komast inn á Ólympíuleikana 2020 en íslenskur maraþonhlaupari tók síðast þátt í Ólympíuleikum í London 2012, þegar Kári Steinn Karlsson var meðal keppenda. Þess má geta að aðeins 80 maraþonhlauparar munu keppa á ÓL í Tokyo samanborið við 120 á síðustu leikum.