Lengsta hlaup á Íslandi; fyrsta konan hljóp

birt 10. maí 2006

Laugardaginn 29. apríl síðastliðinn fór fram hið árlega Þingvallvatnshlaup. Þingvallavatnshlaupið er lengsta félags- og æfingahlaup landsins, yfir 70 km langt, rúman hringveg umhverfis Þingvallavatn.

Að þessu sinni hlupu 6 hlauparar all leiðina. Frá þessu er nánar greint í máli og myndum á vefsíðunni Ágústar Kvaran. Sömu hlauparar hyggja allir á þátttöku í 100 km keppnishlaupum í vor og sumar, og var Þingvallvatnshlaupið liður í æfingum þar að lútandi.

Hlaupararnir Halldór Guðmundsson og Gunnlaugur Júlíusson hyggja á þátttöku í tíunda 100 km hlaupinu í Óðinsvé, sem fram fer í Danmörku, 27. maí næstkomandi, en hlaupararnir Pétur Frantzson, Elín Reed, Ellert Sigurðsson, Gunnar Ricther munu taka þátt í LaplandUltra sem fram fer í Svíþjóð 30. júní næstkomandi. Elín verður þar með fyrsta íslenska konan til að hlaupa slíkt ofurmaraþonhlaup, en hún var jafnframt fyrsta konan til að hlaupa Þingvallvatnshlaupið að þessu sinni.

Allir hafa þessir hlauparar æft stíft undanfarna vetrar- og vormánuði við misjöfn skilyrði. Félag 100 km hlaupara á Íslandi hefur fylgst með og greint frá gangi mála  á vefsíðu sinni og mun halda því áfram.

Ágúst Kvaran