Fimmtudaginn 25. maí (Uppstigningardagur) verða margir af bestu 10 km Norðurlanda mættir leiks í Kópavogi í árlega keppni Norðulandabúa í 10 km hlaupi, Nordic Challenge.
Í karlaflokki mæta okkar sterkustu hlauparar, Kári Steinn Karlsson, Stefán Guðmundsson og Þorbergur Ingi Jónsson. Bestan tíma keppenda á Daninn Flemming Bjerre 29:18 mín og þó 7 keppendur séu skráðir með betri tíma en Kári Steinn þá eru okkar menn í mikilli framför eiga örugglega eftir að bæta sig vel. Kári Steinn stefnir á að komast undir 31 mínútu (á best 31:10 mín) en þeim árangri hafa aðeins náð þeir Sigurður Pétur Sigmundsson, Sveinn Margeirsson og methafinn Sigfús Jónsson (30:10 mín).
Þekktasti erlendi keppandinn er Annemari Sandell frá Finnlandi en hún á finnska metið í 10 km hlaupi kvenna, 31:40,42 mín. Hún vakti heimsathygli 1995 þegar hún varð 3. í HM í víðavangshlaupi og Evrópumeistari í víðavanghslaupi. Hún hefur sagst ætla að reyna við lágmark fyrir Evrópumeistaramótiði í 10 km hlaupi í Kópavogi en það er 33:20 mín. Fyrir Íslands hönd í kvennaflokki keppir okkar margreynda landsliðskona Fríða Rún Þórðardóttir.
Það skiptir miklu máli fyrir keppendur að fá góða hvatningu. Hlaup.is hvetur því alla til að mæta á völlinn og hvetja alla keppendur til dáða.
Kvennahlaupið er kl. 13:45 og karlahlaupið kl. 14:45 en einnig er keppt í öðrum greinum og hefst keppni kl. 13:15.