Ný spennandi hlaupaferð - Hlaupið um náttúru Íslands

birt 21. maí 2013

Þann 20 - 26. júlí verður farin einstök hlaupaferð fyrir vana hlaupara. Hlaupnir verða 18 til 30 km á dag á stígum og á ótroðnum slóðum í náttúru Íslands, sjá upplýsingar og skráningu á vef hlaupaferðarinnar.

Ef þú ert vanur hlaupari þá er hér á ferðinni einstök hlaupaferð fyrir þig. Ferðin byrjar á hlaupi um Ölkelduháls yfir Hengil og á Þingvelli. Síðan er ekið uppá miðhálendið í Kerlingarfjöll þar sem heimsótt verða hin rómuðu Þjórsárver. Hlaupið um ósnerta náttúru þar sem enginn er á ferð nema fuglinn fljúgandi. Ferðinni er síðan heitið í Friðlandið Fjallabak og hlaupið um mögnuð háhitasvæði í Reykjadölum og Hrafntinnuskeri. Síðasta daginn liggur leiðin yfir Fimmvörðuháls áður en haldið er heim á leið. Möguleiki að hlaupa um Ægisíðuna og fara í sjóbað á 8. degi.

Boðið er uppá að taka þátt í hluta af ferðinni (sjá neðar) en hér birtist hún í heild sinni.

1. dagur. Hafnarfjörður - Selvogur - Hveragerði
Lagt af stað frá Hafnarfirði. Hlaupum hina fornu Selvogsgötu sem liggur á milli Hafnarfjarðar og Selvogs. Gisting í Hveragerði (Frost og Funi) + kvöldmatur. Um 30 km hlaup.

2. dagur. Hveragerði - Ölkelduháls - Þingvellir
Hlaupið frá Hveragerði um Ölkelduháls yfir Hengil til Þingvalla. Fjallabað í Reykjadalsá. Gisting á Hótel Eddu Laugarvatni + kvöldmatur.
Gufubað (Fontana) í lok dags. Um 30 km hlaup og um það bil 800 m heildarhækkun.

3. dagur. Kjölur - Kerlingarfjöll
Hvíldardagur fyrri part dags með skoðunarferð um Gullfoss og Geysi. Ekið inná Kjöl. Hlaupið í Kerlingarfjöll um Hverabotn. Gisting í Kerlingarfjöllum + kvöldmatur. Um 18 km hlaup.

4. dagur. Kerlingarfjöll - Þjórsárver
Hlaupið yfir mögnuð háhitasvæði Kerlingarfjalla og áfram um Illahraun. Gisting í skála 4×4 í Setri við mörk friðlandsins Þjórsárver. Gisting í Setri í tvær nætur + kvöldmatur. Um 28 km hlaup með um það bil 900 metra heildarhækkun.

5. dagur. Þjórsárver
Dagur í Þjórsárverum. Vaðið Blautakvísl og Múlakvísl, hlaupið að Múlunum við Múlajökul. Flæðiengin til baka í Setur. Hátíðarkvöldverður, grill og stemmning í Setri. Um 32 km hlaup um flatlendi.

6. dagur. Fjallabak
Fjallatrukkur kemur að sækja hópinn í Setur. Ekið niður Gljúfurleit og inn Dómadalsleið. Hlaupið um Pokahrygg, yfir Hrafntinnuhraun, Hrafntinnusker og niður Ljósártungur. Bíllinn sækir hópinn við Laufafell. Hótel Hvolsvöllur gisting + kvöldmatur. Um 25 - 30 km hlaup með um það bil 600 m heildarhækkun.

7. dagur. Þórsmörk - Fimmvörðuháls
Ekið í Þórsmörk. Hlaupið yfir Fimmvörðuháls. Hópurinn sóttur að Skógum eftirmiðdaginn.
Ekið til Reykjavíkur.

Aukadagur: Möguleiki að hlaupa um Seltjarnarnes og Ægissíðu og fara í sjósund og heita potta daginn eftir.

Styttri áfangar

Einnig er boðið upp á að taka þetta í eftirfarandi bútum:

  • 20. Júlí: Hafnarfjörður - Selvogur
  • 21. Júlí: Hveragerði - Ölkelduháls - Þingvellir
  • 22. - 25. Júlí: Kerlingarfjöll - Þjórsárver
  • 22. - 26. Júlí: Kerlingarfjöll - Þjórsárver - Torfajökulsvæðið - Fimmvörðuháls

PRAKTÍSKAR UPPLÝSINGAR

Dagsetningar : 20. - 26. júlí 2013

Leiðsögumenn: Ósk Vilhjálmsdóttir og Bryndís Ernstdóttir maraþon- og fjallahlauparar.

Hópur: 15-20 manns

Verð: 240.000 kr. á mann

Innifalið í verði:
Tveir leiðsögu-hlauparar.
4 nætur á hótelum og 2 nætur í skálum
Allar rútuferðir í ferðinni
Trúss með mat og farangur á alla næturstaði
Fullt fæði í 7 daga, (líka nesti, gel ofl) frá hádegi á degi 1 til hádegis á degi 7

Sjá upplýsingar og skráningu á vef hlaupaferðarinnar