Enn fjölgar íslenskum ofurmaraþonhlaupurum: Nýir meðlimir í félagi 100 km hlaupara á Íslandi
Á fundi Félags 100 km hlaupara á Íslandi, sem haldinn var 7. júní 2007, sjá fundargerð voru tveir nýir meðlimir teknir í félagið við hátíðlega athöfn. Þetta voru þeir Eiður Aðalgeirsson og Börkur Árnason (sjá líka mynd). Eru þeir félagsmenn nr. 14 (E.A.) og 15 (B.Á.).
Eiður Aðalgeirsson hljóp 100 km Sri Chinomy hlaupið sem fram fór 28. apríl, 2007 í námunda við Amsterdam í Hollandi. Hiti var mikill meðan á hlaupinu stóð. Um 10 keppendur hófu hlaupið og 7 kláruðu. Eiður hljóp á tímanum 13:24:06.
Börkur Árnason hljóp 100 km hlaupið sem fram fór í Óðinsvé í Danmörku 19. maí, 2007. Hiti var einnig mikill meðan á hlaupi hans stóð. Hann varð í 10 sæti af 24 þátttakendum sem kláruðu hlaupið. 34 hlauparar hófu hlaupið. Börkur hljóp á tímanum 10:24:24.
Mikil gróska hefur færst í ofurmaraþonhlaup í flokki 100 km keppnishlaupa og lengri á undanförnum árum. Samtals 15 Íslendingar hafa lokið þátttöku í 100 keppnishlaupum erlendis frá því árið 1998. Alls hafa Íslendingar hlaupið 19 slík hlaup. Skráð hlaup Íslendinga í enn lengri keppnishlaupum (100 mílna hlaupum og 24 klst hlaupi / 197 km) eru samtals 4. Fram kom á fundi félagsins að áætlanir eru uppi um fleiri ofurhlaup í þessum flokki á næstunni. Upplýsingar hér að lútandi, frásagnir og fréttir er unnt að nálgast á vefsíðu félagsins.
Þá eru áform uppi um 100 km keppnishlaup á vegum félagsins hérlendis á næsta ári.