Adidas hefur nú kynnt til sögunnar fyrsta hlaupaskó sögunnar með tölvustýrðri dempun. Skórnir eru útbúnir með sérstöku kerfi, sem með hjálp skynjara nemur höggþrýsting á hæl hlauparans. Með lítilli örtölvu skrá skórnir hvort niðurstigið er of þungt eða létt, og sendir viðeigandi skilaboð til lítils örmótors sem sér svo um að stýra mýkt loftpúða í hæl hlaupaskósins.
Kerfið vinnur líkt og viðbrögð líkamans gera, nema hvað í þessu tilfelli eru viðbrögðin byggð á rafrænum skynjara sem staðsettur er hæl hlauparans. Í hvert skipti sem fóturinn snertir jörðina mælir skynjarinn, með gríðarlegri nákvæmni, fast millibil í hælnum. Út frá þessari mælingu reiknar örtölvan svo út þrýstinginn sem myndast þegar hællinn lendir á jörðinni og í framhaldinu reiknar hún svo út hve mikið þarf að dempa höggið. Þetta ferli er svo síendurtekið, en tölvan mælir og reiknar út 1.000 sinnum á sekúndu.
Örtölvan er staðsett undir millisólanum. Örtölvan getur afkastað mun meiru en hér kemur fram að framan, en hún ræður við um fimm milljónir útreikninga á sekúndu. Sérstakur hugbúnaður ber saman mælingarnar við önnur gögn sem skórinn þekkir og reiknar þannig út hvort höggið sé mjúkt eða hart. Hver sem niðurstaða örtölvunnar er, sendir hún skilaboð áfram til örmótorsins sem sér svo um að strekkja á eða slaka á vír sem liggur utan um loftpúða. Þegar það strekkist á vírnum, þéttist loftpúðinn og gefur því lítið eftir og skórnir verða harðari. Að sama skapi verða skórnir mýkri þegar örmótorinn slakar á vírnum. Breytingarnar gerast jafnt og þétt og það eina sem hlauparinn verður var við, er að skórinn er alltaf jafn góður allan tímann. Örmótorinn notar litla rafhlöðu sem endist í um 100 tíma eða í svipaðan tíma og venjulegir hlaupaskór endast.
Það tók Adidas um þrjú ár að þróa þennan tölvuvædda skó. Þróunin fór fram fyrir luktum dyrum og vissu einungis mjög fáir starfsmenn Adidas um málið þar til heiminum var greint frá þessu. Í upphafi er gert ráð fyrir að takmarkað magn af skónum verði sett í dreifingu í sérstakar verslanir í ársbyrjun 2005 og mun parið kosta um 20-30 þúsund.
Það er ljóst að þessi nýjung frá Adidas kemur til með að hafa mikil áhrif á aðra framleiðendur á íþróttaskóm í heiminum, enda hefur aldrei komið á markaðinn neitt þessu líkt. Fyrir vikið hefur Adidas komið sér fyrir í þægilegu sæti fremst meðal annarra framleiðenda á hlaupaskóm og full ástæða fyrir hlaupara að hlakka til framtíðarinnar og komandi nýjunga í hlaupaskóm, enda harla ólíklegt að Adidas fái að vera þarna í næði um langa hríð.