Nýjustu fréttir af hlaupaferð til Suður-Afríku

birt 22. nóvember 2005

Kæru hlauparar,
 
Eins og sum ykkar vitið höfum við Úlfar lengi alið þann draum að stofna til hlaupaferðar til Suður Afríku til að taka þátt í Tveggjahafahlaupinu eða the Two Oceans Marathon. Í vor sendum við smá greinarstúf á hlaupasíðuna, sem enn má sjá þar.
 
Núna erum við búin að fá frábært tilboð um verð frá ferðaskrifstofunni Prima/Embla, sem er ISK 85.000.- per mann + flugvallarskattar miðað við vikudvöl frá 12 apríl til 19. apríl, sumsé Keflavík-London Heathrow--Cape Town-London-Keflavík.  Hlaupið er 15. apríl, laugardag fyrir páska.  Miðað við verð skattana í dag myndi heildarkostnaður rétt losa ISK 100.000.- per mann. Þá er eftir gisting, en hún er bæði ódýr og góð þarna niður frá og ætti ekki að hækka verðið um meir en ISK 40.000.-. per par. Það er verið að vinna núna í þeim málum fyrir væntanlegan hóp núna. Flugið frá London er kl. 21:00 12. apríl  og tilbaka kl. 19:25. 19 apríl.  Ef hlauparar vilja lengja dvöl er þeim bent á að hafa samband við ferðaskrifstofuna.  
 
Bestu upplýsingarnar um hlaupið sjálft er að finna á www.twooceansmarathon.org.za en auðvitað er margt annað að gera þessa viku í þessu dásamlega landi. Við myndum lenda á fimmtudagsmorgni 13. apríl, og hlaupið er á laugardagsmorgni kl. 7:00 svo við myndum eflaust ekkert vera til stórræðanna fimmtudag og föstudag. Þið vitið hvernig það er.
 
Hinsvegar höfum við sunnudag, mánudag , þriðjudag og hluta af miðvikudegi til að gera eitthvað skemmtilegt. Það er af mörgu að taka.
 
"Esjan" þeirra þarna í Höfðaborg er Borðfjallið eða "Table Mountain".  Það er heldur hærra en Esjan okkar  eða ca 1050 m. Það eru gönguleiðir upp fjallið á öllum getustigum, svona frá huggulegum göngustígum eins og á Esju upp í að hanga á fingurgómum á klettasillum með frítt fall niður ca. 6-7hundruð metra. Við getum leigt leiðsögumenn fyrir hvert stig. Já, og svo er líka hægt að fara upp í kláfum, en maður þorir varla að minnast á það á þessum vettvangi.
 
Suður Afrísku vínin eru fræg um allan heim fyrir gæði og þegar við verðum þarna i haustbyrjun en einmitt uppskera. Það væri alveg upplagt að fara í víntúr, þar sem ferðast er á milli vínbúgarða í nánd við fallegan háskóla og vinræktarbæ sem heitir Stellenbosch og er í grennd við Capetown. Hann tæki hálfan dag og við myndum auðvitað leigja litla rútu ásamt leiðsögumanni til að taka þá sem það vilja.
 
Svo er einnig hægt að mæla með ferð á Góðravonahöfða þar sem Atlantshaf og Indlandshaf mætast og Hollendingurinn fljúgandi er enn á sveimi leitandi eftir höfn. Það er ógleymanlegt að horfa á útsýnið þaðan.
 
Svo er hægt að minnast á hafnarsvæðið í Capetown sem heitir Waterfront. Þar er stór og mikil "Kringla" með alls konar verslunum með heldur ódýrari fatnaði en hér. Einnig eru mjög margir veitingarstaðir á þessu svæði, hver öðrum betri. Þaðan er líka hægt að fara í bátsferð á Robeen Island þar sem Mandela var í haldi í ca. 18 ár. Leiðsögumenn á eyjunni eru allir fyrrverandi fangar. Við mælum eindregið með ferð þangað. 
 
Það er mjög ódýrt og gott að borða þarna, matur og vín kostar mun minna en við erum vön frá flestum öðrum stöðum og er í hærri gæðaflokki. Fólkið er sömuleiðis einstaklega þægilegt og indælt.
 
Vinsamlegast athugið að við verðum að koma með nafnalista til Primu/Emblu innan 10 daga og að þeir vilja fá ISK 20 þús per mann í staðfestingargjald. Við leggjum áherslu á að þetta er í raun einstaklega gott verð. Þeir sem ekki þekkja reikningsnúmerið sem hægt er að leggja inn á, hafið samband við mig, bryndism@icelandair.is
 
Bestu kveðjur,
 
Bryndís og Úlfar