Nýr aldursskalaður listi (forgjafarlisti)

uppfært 25. ágúst 2020

Eins og fjölmargir hafa tekið eftir, þá var í fyrsta skiptið sýndur aldursskalaður listi í Ársbestu listum í hálfu maraþoni og heilu maraþoni. Þetta er að nokkru leyti til gamans gert en einnig til að kynna nýja framsetningu (til gamans) á Ársbestu listunum.

Það er gaman að sjá hversu vel þessu er tekið, takk fyrir það. Við höfum hinsvegar fengið ábendingu um að við værum bara að skoða Ársbesta listann og því næðu þeir, sem væru með góðan árangur en ekki inn á Ársbesta listanum, ekki inn á forgjafarlistann. Ábendingin er réttmæt en að þessu sinni verður þetta á þessu formi, en það getur vel verið að við fjölgum á Ársbesta listanum og þar með á aldursskalaða listanum.

Hinsvegar langar mig til að vekja athygli á, að á nýjum hlaup.is vef, sem er væntanlegur í byrjun næsta árs, verða öll úrslit aldurssköluð (age-graded) og þar með verður Ársbesti listinn í raun líka listi allra hlaupara sem hafa hlaupið tiltekna vegalengd (enginn efri mörk á fjölda, allir sjá sína stöðu á landsvísu) og þá um leið aldursskalaði listinn (sem ég hef núna kallað forgjafarlistann). Við munum hafa birtingu á Ársbesta í 5 km, 10 km, 21 km og 42 km á nýjum hlaup.is.

Annað sem okkur var bent á, var að ekki væri rétt að birta leiðrétta (skalaða tíma) heldur frekar að birta prósentu af tíma besta. Það getur vel verið að einhverjum líki sú framsetning, en við höfum valíð að gera þetta á þann hátt sem þið sjáið með núverandi framsetningu.

Þetta er til gamans gert og umreiknaðir tímar segja miklu meira en prósentur að okkar mati. Að auki munum við á nýjum vef líka birta Ársbesta í aldursflokkum. Við teljum því að með þessu öllu náum við að bæði að koma til móts við þá bestu með hefðbundnum Ársbestu listum, aldurskempurnar með Ársbesta í aldursflokkum og síðan til gamans Ársbesti listinn aldursskalaður. Meira síðar um fullt af nýjum og skemmtilegum hlutum á nýjum hlaup.is vef