Fyrsta æfing nýs hlaupahóps sem hafa mun bækistöðvar í nýrri heilsuræktarstöð Lauga í Laugardal var síðastliðinn mánudag, 5. janúar. Hlaupið verður frá stöðinni kl. 17:30 á mánudögum og miðvikudögum, og síðan laugardagshlaup snemm-morguns.
Um verður að ræða gamalt vín á nýjum belgjum, flestir hlauparar hópsins hafa sést í hlaupaskóm áður, og hlaupið með öðrum hlaupahópum víðs vegar um höfuðborgarsvæðið. Hópurinn hefur aðgang að laug og pottum eftir hlaup, svo og tækjasal og opnum tímum stöðvarinnar á opnunartíma hennar. Hlauparar, hvort heldur sem er byrjendur eða þaulvanir, eru hvattir til að slást í hópinn og taka þátt í að móta starfsemina. Eins er hópurinn enn óskírður og er góðra tillagna að nafni beðið með eftirvæntingu.