Susan Chepkemei frá Kenýa setti nýtt heimsmet í 1/2 maraþonhlaupi kvenna í Lissabon í Portúgal þann 1. apríl síðastliðinn. Chepkemei sem aldrei áður hafði hlaupið undir 1:09 hljóp á frábærum tíma 1:05:44 og bætti heimsmet Masako Chiba, sett í Tókýó 1999, um 59 sekúndur. Millitími hennar á 10 km var 31:20. Lornah Kiplagat bætti einnig heimsmetið, hljóp á 1:06:34, sem dugði henni í annað sæti. Tegla Loroupe frá Kenýa, sem átti áður brautarmetið í Lissabon, var fjórða á 1:08:16.
Chepkemei ætlar að taka þátt í Rotterdam maraþoni þann 22. apríl næstkomandi, en á þeirri braut setti hún persónulegt met 2:26:39 árið 1999. Tími hennar í Lissabon jafngildir 2:18 maraþoni og því verður mjög spennandi að sjá hvað hún gerir í Rotterdam, en heimsmetið 2:20:43 á Tegla Loroupe, sem hún setti 26. september 1999 í Berlín.
Brautin í Lissabon lækkar um 69 metra frá starti að marki og þetta væri kannski tilvalin hlaupaferð á næsta ári ??