Um næstkomandi verslunarmannahelgi, laugardaginn 30. júlí kl. 11 verður í fyrsta sinn haldið svokallað Hlaupið í Skarðið, 10 km fjallahlaup. Hlaupið er einn af dagskrárliðum hátíðarinnar Síldarævintýrið, og er hlaupaleiðin gamli Skarðsvegurinn, frá Heljartröð skammt fyrir norðan Hraun í Fljótum, upp í Siglufjarðarskarð og niður að skíðaskálanum í Skarðsdal. Á sama tíma verður hlaup fyrir börnin og fylgdarlið, væntanlega frá íþróttamiðstöðinni á Hóli og upp að skíðaskálanum, 2-3 km leið.
Um nánara fyrirkomulag hlaupsins, skráningar og annað verður vikið að þegar nær líður keppninni,enda er skipulagsvinnan nýbyrjuð.
Þessi hlaupaleið frá Heljartröð og yfir Skarðið hefur síðustu sumur verið vinsæl hjá ýmsum skokkurum, t.d. hefur skokkhópurinn á Sauðárkróki hlaupið þarna um á hverju sumri og finnst hlaupaleiðin mjög skemmtileg og krefjandi, enda eru þarna um 400 metra hækkun frá byrjun hlaups og upp í Skarðið þar sem hlaupið er rúmlega hálfnað, sérstaklega er seinasti hlutinn upp í Skarðið í svokölluðum Skarðsdal Fljótamegin krefjandi. Er ljóst að Skarðshlaupið er allt örðuvísi hlaup en önnur fjalla- og víðavangshlaup sem hingað til hefur verið boðið upp á. Fyrir hlaupara sem hafa gaman af að prófa nýjar hlaupaleiðir er því Skarðshlaupið tilvalið, enda ekki um mörg hlaup að velja yfir verslunarmannahelgina, mestu skemmtanahelgi sumarsins.
Skíðafélag Siglufjarðar, Skíðaborg sem stendur fyrir hlaupinu.