Á Uppskerukvöldi Framfara héldu Halldóra Brynjólfsdóttir og Þórarinn Sveinsson frá Rannsóknarstofu í Hreyfivísindum við Háskóla Íslands erindi um notagildi mjólkursýruprófa.
Fjallað var almennt um áreiðanleika og notagildi mjólkursýruprófa og annarra þolprófa og kynntar niðurstöður nýrrar rannsóknar á mjólkursýru- og þolprófum en rannsóknin sýndi fram á að nýtt hlaupapróf er áreiðanlegri mæling á mjólkursýruþröskuldi en hefðbundnar og dýrari aðferðir.
Hlaupapróf þetta verður kynnt nánar síðar, þar sem Halldóra og Þórarinn eru að undirbúa kynningu á rannsókninni, en í grundvallaratriðum felst það í því að hlaupa 2-3svar á hlaupabretti, á ákveðnum hraða eftir fyrirfram ákveðinni forskrift og finna þannig út mjólkursýruþröskuldinn.
Mjólkursýruþröskuldurinn getur sagt hlaupurum á hvaða hámarkshraða þeir geta hlaupið ákveðna vegalengd, það er hvenær líkaminn byrjar að framleiða orku í loftfirrðu ástandi en á þeim tímapunkti byrjar mjólkursýra að myndast sem lýsir sér með þreytu(tilfinningu) í vöðvum og neyðir mann til að hægja á sér.
Hingað til hefur mjólkursýrumæling verið framkvæmd með því að taka blóðsýni en framkvæmdin er frekar erfið og miklar líkur á umtalsverðum skekkjum. Þetta nýja hlaupapróf mun því einfalda verulega aðferðina við að finna mjólkursýruþröskuldinn og verður kynnt hér á hlaup.is um leið og það verður tiltækt.