Í haust ætlar ungmannafélagið Sindri á Höfn í Hornafirði að halda öldungamót á Höfn fyrir konur og karla sem náð hafa 30 ára aldri. Á mótinu sem verður haldið 19. - 20. september verður keppt í badminton, blaki, bridge, fótbolta, frjálsum og golfi. Í allar þessar greinar geta menn skráð sig sem lið fyrir ákveðið félag eða sem einstaklingar. Keppnisgjöld verða mjög væg einungis 3000 kr á mann sama hvað keppt er í mörgum greinum en einnig verður boðið upp á pakka þar sem innifalin verða keppnisgjöld og hátíðarkvöldverður með glæsilegum hornfirskum skemmtiatriðum og hlaðborði. Gistiaðilar verða með tilboð fyrir þátttakendur þessa helgi og auðvitað er öllum frjálst að gista á tjaldstæðinu. Þeir sem áhuga hafa á að kynna sér þetta nánar geta kynnt sér mótið á heimasíðu þess iformi.is þar sem einnig er hægt að skrá sig og verður heimasíðan komin af stað fyrir lok mánaðarins.
Ástæðan fyrir því að ákveðið var að ráðast í mót sem þetta var að félagsmönnum í Sindra fannst vanta framboð af mótum fyrir fullorðið fólk þar sem það gæti hist og leikið sér í fleiri en einni íþróttagrein. Margir æfa ýmsar íþróttir allt árið og það er óneitanlega gaman að fá tækifæri til að spreyta sig í keppni hvort sem um lið er að ræða eða einstaklingskeppni. Þar að auki telja menn að mót á þessum árstíma sé gott starf fyrir þær íþróttir sem helst eru stundaðar á veturna á meðan það er líka góður endir á sumrinu í t.d. frjálsum og golfi.
Forsvarsmenn iformi.is hvetja fólk á besta aldri til að taka þessa helgi frá og koma á Höfn og keppa í góðum félagsskap. Hornfirðingar munu taka vel á móti gestum sínum og hafa þegar lagt inn pöntun fyrir góðu veðri þessa helgi.
Stjórn iformi.is