Opnað aftur skráningar í Laugaveginn - 20% afsláttur í Reykjavíkurmaraþon út maí

uppfært 23. maí 2021

Samfara afléttingu samkomutakmarkana er heldur betur að létta til í íslenska hlaupasamfélaginu. Nú rekur hvert hlaupið annað og vonir standa til jafnvel til þess að framkvæmd almenningshlaupa verði komin nálægt eðlilegu horfi um mitt sumar. Í það minnsta er útlit fyrir að hægt verði að standa með fyrir stórum hlaupaviðburðum í sumar í mjög ásættanlegu formi. Minnum á eina staðinn á þar sem er að finna upplýsingar og yfirlit yfir viðburði í íslenska hlaupasamfélaginu, Hlaupadagskrá 66°Norður á hlaup.is

Skráning í Laugavegshlaupið opnar aftur miðvikudaginn 26. maí kl. 12:00.

Fyrirkomulagið á skráningunni verður með breyttu sniði en skráningin verður opin í sólarhring, opnar kl. 12:00 þann 26. maí og lokar kl. 12:00 þann 27. maí. Dregið verður um 50 sæti föstudaginn 28. maí. Allar skráningar sem komu inn 26.-27. maí fá slembitölu sem ráða því hver fær miða í hlaupið. Þeir sem fá ekki sæti en skráðu sig inn og greiddu þátttökugjaldið, fá allt gjaldið endurgreitt. Miði er svo sannarlega möguleiki, ekki síst fyrir þá sem sátu eftir með sárt ennið í skráningarglugganum í janúar.

Skráningin er bindandi og þeir sem skrá sig þá í hlaupið eiga ekki möguleika á að fá 50% endurgreitt af þátttökugjaldi vegna forfalla. Frekari upplýsingar um skráninguna má finna hér. Nú er um 9 vikur fram að hlaupi og er Laugavegur Ultra Maraþon aðeins fyrir reynslumikla hlaupara í góðri alhliða þjálfun, 18 ára og eldri, sjá nánar hér.

Reykjavíkurmaraþon Íslandsbanka með 20% afslátt út maí

Reykjavíkurmaraþon Íslandsbanka 2021 verður haldið í 37. sinn þann 21. ágúst og að sjálfsögðu verður farið eftir gildandi samkomutakmörkunum á þeim tíma. Í bili hyggjast skipuleggjendur hvíla barnahlaupið í ljósi ástandsins þó ekki sé loku skotið fyrir að því verði bætt við á síðari stigum.

Ekki verður leyfilegt að skrá sig í fleiri en eina vegalengd, t.d. geta þátttakendur ekki hlaupið 10 km hlaupið og hlaupið 3 km hlaupið með börnum sínum. Er þetta gert vegna sóttvarnarráðstafana.

Þá hefur áheitasíða Reykjavíkurmaraþonsins hlaupastyrkur.is verið uppfærð og gerð notendavænni með ýmsum nýjungum. Búið er að opna fyrir áheitasöfnun. Hægt er að skrá sig í Reykjavíkurmaraþonið á rmi.is.