Eftir framkvæmd Brúarhlaups Selfoss í dag hefur komið fram gagnrýni á tvö atriði, annars vegar efasemdir um að vegalengd í 1/2 maraþoni hafi verið rétt og hins vegar á að ekki hafi verið verðlaun/verðlaunaafhending fyrir aldursflokka í 10 km hlaupi og 1/2 maraþoni. Vegna þessa skal eftirfarandi tekið fram:
# Sama vegalengd og sömu merkingar voru notaðar í ár eins og sl. ár. Þó skal tekið fram að það hefur gerst einu sinni að "átt" hefur verið við merkingar kvöldið eða nóttina fyrir hlaupið. Þá fóru óprúttnir aðilar og máluðu yfir merkingar með svörtu og merktu nýjar merkingar með réttum lit. Við aðstandendur hlaupsins vonum að ekkert slíkt hafi gerst nú en munum að sjálfsögðu fara yfir brautina og athuga hvort allt er ekki eins og merkt var upp í sl. viku.
# Varðandi verðlaun fyrir aldursflokka í 10 km og 1/2 maraþoni að þá hefur ekki verið hætt við þær og þær verða eins og auglýst var. Það sem hins vegar gerðist í þessu hlaupi er það að aldrei hafa eins margir, eða yfir 80% þátttakenda skráð sig í hlaupið á síðustu stundu rétt áður en hlaupið hófst. Það gerði það að verkum að mun meiri tími fór í að skrá keppendur
inn í tölvukerfið og því var það ekki búið þegar fyrsta hlaup hófst.
Vegna þess að töluverðan tíma tekur að flokka heildarúrslit niður á aldursflokka, var sýnt að það tækist ekki á klukkutíma eftir hlaup og því var ákveðið að láta fólk ekki bíða heldur fresta verðlaunaafhendingunni og senda viðkomandi aðilum verðlaun sín í pósti, eftir helgina.
Aðstandendur hlaupsins harma þetta og vilja biðjast afsökunar á þessu og munu fara yfir skráningarþáttinn fyrir næsta hlaup og þá með það í huga hvort loka verði skráningum mun fyrr og þannig flýta allri tölvuúrvinnslu og skráningu.
Þrátt fyrir þetta vonum við að þátttakendur í dag hafi átt ánægjulegan dag á Selfossi og að við sjáum þá að ári. Í vetur mun verða unnið í því að breyta hlaupaleiðum og þá með það að markmiði að reyna að minnka vegalengd á Eyrarbakkavegi og minna þurfi að hlaupa sömu leiðina til baka.
f.h Brúarhlaups Selfoss,
Helgi Sigurður Haraldsson