Hefur þú tognað aftan í læri eða slitið fremra krossband í hné?
Óskað er eftir þátttakendum í rannsókn með ómskoðun á stærð aftanlærisvöðva. Óskað er annars vegar eftir íþróttafólki á aldrinum 18-35 ára með sögu um aftanlæristognun öðrum megin og hins vegar íþróttafólki á aldrinum 18-40 ára sem hafa slitið fremra krossband og gengist undir aðgerð með endurgerð úr vef aftan úr læri (semitendinosus).
Einnig er óskað eftir þátttakendum í samanburðarhóp: íþróttafólki á aldrinum 18-40 ára sem hefur enga sögu um stóra áverka á ganglimum.
Markmið þessarar rannsóknar er að kanna hvort munur sé á þverskurðarflatarmáli aftanlærisvöðva (semitendinosus og bicep femoris) meðal einstaklinga sem hafa tognað aftan á læri eða slitið fremra krossband í hné og gengist undir aðgerð með endurgerð úr vef aftan úr læri miðað við hóp þeirra sem hafa engu sögu um stóra áverka á ganglimum. Tilgangurinn er að meta það hversu góð aðferð þetta er til að meta vöðvamassa. Þátttakendur mæta í eitt skipti (45-60 mín) þar sem vöðvamassi er metinn beggja megin. Þátttakandi liggur á maganum, í stuttbuxum, á meðan skoðun fer fram.
Rannsakendur eru Andrea Þórey Hjaltadóttir athh14@hi.is og Daði Hafsteinsson dah10@hi.is nemar á 5. ári í sjúkraþjálfun. Ábyrgðamenn eru Kristín Briem prófessor kbriem@hi.is og Dr. Árni Árnason arnarna@hi.is og er rannsóknarstaður Rannsóknastofa í hreyfivísindum, Stapa við Hringbraut.
Endilega hafið samband við einhverja af ofangreindum ef áhugi er fyrir þátttöku eða ef óskað er eftir frekari upplýsingum um rannsóknina. Slík samskipti eru algerlega án skuldbindinga um þátttöku og fyllsta trúnaði er heitið.
Ávinningur og áhætta/óþægindi fyrir þátttakendur: Ávinningur af þátttöku felst í upplýsingum hvað varðar eigin vöðvamassa. Engin sérstök áhætta er af þátttöku og engin fyrirsjáanleg óþægindi og ekki er greitt fyrir þátttöku.
Vinsamlegast hafið samband með tölvupósti á ofangreind netföng rannsakenda til að fá frekari upplýsingar um tilgang og framkvæmd rannsóknar – slík samskipti eru algerlega án skuldbindinga um þátttöku.