Rúmlega 10 þúsund hlauparar hafa skráð sig til leiks í Reykjavíkurmaraþonið sem fer fram á laugardaginn. Að vanda hyggjast flestir hlaupa 10 km eða rúmlega helmingur þátttakenda. Rúmlega þúsund manns láta ekki kílómetrana 42,2 hræða sig og ætla að hlaupa maraþon.
Erlendir hlauparar taka þátt sem aldrei fyrr og rúmlega tvö þúsund manns af 60 þjóðernum eru skráðir til leiks, flestir Bandaríkjamenn eða 490.
Margir láta sér ekki nægja að hlaupa í Reykjavíkurmaraþoninu heldur skrá sig einnig á hlaupastyrkur.is og safna áheitum. 42 milljónir hafa þegar safnast sem er góðum fimm milljónum meira heldur en á sama tíma í fyrra.